Gleðin í því smáa | Ekki heimsendir, en ...

Þegar bræðurnir hittust ræddu þeir heilsufar manna, tíðarfar, fallþunga dilka og önnur almælt tíðindi. Nú var annað uppi á teningnum. Glóa og tvíburunum var sagt að fara að læra fyrir morgundaginn og svo út að leika sér. Glói lagðist á stofugólfið með skólabækurnar og þóttist læra. Hann sperrti eyrun og hlustaði.

„Fidel Castro Kúbuleiðtogi, sem er ekkert annað en atvinnubyltingarmaður af landeigendastétt hefur leyft Sovétmönnum að byggja eldflaugaaðstöðu í mikilli óþökk Bandaríkjamanna. Hvurn skrambann er maðurinn að hugsa?“

Pabbi hans tók undir og sagði að nú hefðu Sovétmenn með Nikíta Krústjoff í fararbroddi gengið einum of langt og segja mætti að allt stjórnkerfi Bandaríkjanna nötraði af skelfingu og æsingi. „Heimsbyggðin rambar á barmi kjarnorkustyrjaldar. Enginn veit hvort, hvenær eða hvernig þessi ósköp enda.“

Þungt hugsi bankaði hann ósjálfrátt með krepptum hnefa í eldhúsborðið. Fólk bar kvíðboga í brjósti vegna atburðanna. Glói fór ekki varhluta af því frekar en aðrir. Rússagrýlan vofði yfir. Fréttir af Kúbudeilunni glumdu í útvarpinu alla daga og Tíminn gerði málinu skil.

Glói meðtók ekki kveðju frænda síns þegar hann kvaddi og fór. Gat hugsast að ljósmyndin af einhyrningnum í Tímanum væri fyrirboði um kjarnorkustyrjöld? Skólalærdómurinn næstu daga fór fyrir neðan garð og ofan. Hann fór á bókasafnið, skilaði bókum sem hann hafði lesið og fékk nýjar. Amma hans var honum skjól og hann jánkaði feginn þegar hún bað hann um að skreppa með sér kvöldstund til Kolgríms og Kristrúnar.

Drengurinn gekk rakleiðis inn í herbergi gamla mannsins sem sat við skrifpúltið sitt og hafði nýlokið við að skera skro. Bitunum raðaði hann nostursamlega í silfurtóbaksdós og setti væna sneið af tóbakinu undir vörina. Þrítugasti október 1962 blasti við á dagatali Kaupfélags Skagfirðinga sem hékk á krók fyrir ofan púltið.

„Verður nokkuð kjarnorkustyrjöld?“ spurði drengurinn varfærnislega og umbúðalaust. Hann varð að spyrja einhvern sem hann treysti en var viðbúinn því að gamli maðurinn hefði um það mörg orð í stað þess að segja já eða nei.

„Þú segir nokkuð drengur minn.“ Íhugull strauk hann kampana, hagræddi sér í stólnum og kjamsaði á tóbakstuggunni. „Það er óþarfi að hafa áhyggjur af kjarnorkustyrjöld. Fjöldi fólks beggja vegna Atlantshafsins þiggur himinhá laun fyrir að hafa áhyggjur af því hvort kjarnorkustyrjöld verður eður ei. Ekki þiggjum við tveir eina einustu krónu fyrir að hafa áhyggjur af kjarnorkustyrjöld. Til hvers að hafa áhyggjur? Það er fólk út um hvippinn og hvappinn sem sér um þá iðju.“ Hann kímdi þegjandi og fylgdist með svipbrigðum drengsins sem gaf til kynna að hann vildi hlusta.

„Sjáðu nú til. Þú vilt stutta svarið sem ekki er til á þessari stundu, en málin mjakast til betri vegar. Blöðin og útvarpið segja að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beri klæði á vopnin og í höfuðstöðvum NATO er sagt að Kennedy forseti hafi gripið til nauðsynlegra ráðstafana með hafnbann á Kúbu. Flugvélar frá bandaríska flughernum og bandaríski sjóherinn er tilbúinn til aðgerða. Ekkert misjafnt fundu bandarísku sjóliðarnir í sovésku skipunum sem þeir skoðuðu. Mér segir svo hugur að stjórn Sovétríkjanna muni láta undan síga því tuttugu og fimm skip frá þeim sveigðu af stefnu sinni til að forðast bandaríska flotann. Það er óðs manns æði fyrir báða aðila að kynda undir þessu ófriðarbáli.“

Drengurinn kinkaði kolli skilningsríkur á svip. „Ég finn samt að eitthvað mun gerast en veit ekki hvað það er. Ef ég veit hvað gerist, þá er það enn verra.“

Gamli maðurinn var þungt hugsi og þagði, lengi. „Að fela sig á hendur hinum hæsta höfuðsmið himins og jarðar hefur verið aðferð kynslóðanna til að sigrast á viðfangsefnum daglegs lífs. Við mannfólkið þurfum leiðandi og líknandi hönd bæði í meðbyr og mótbyr. Liljur vallarins og fuglar himinsins geta verið mönnum vörður á þeirri vegferð. Að vera ljósberi er verðugt verkefni.“ Hann rétti sig upp í stólnum og breytti um tón. „Var það ekki lögreglan sem fann Olla litla, stórslasaðan uppi í Gönguskarðsárgili um daginn?“

Drengurinn kinkaði kolli með spurnarsvip.

„Já, ég hélt það, mikið lán var að leita einmitt þar. Innsæi drengur minn, innsæi til að leita og finna. Alltaf gerist eitthvað alls staðar, misfyrirsjáanlegt. Gleðin og sorgin skiptast á í veröldinni. Nýlega urðu þau gleðilegu tíðindi að barn fæddist, sem er svo sem hversdagslegur atburður, en það óvenjulega er að barnið fæddist með tvær tennur. Það sorglega er að faðirinn fórst í slysi meðan barnið var enn í móðurkviði.“

Gamli maðurinn hummaði og kjamsaði á tóbakstuggunni. Bollaglamur og kaffiilmur barst úr eldhúsinu og húsfreyjan Kristrún bauð til sætis. Áður en þeir stóðu upp og settust til borðs hélt gamli maðurinn áfram glaður í bragði. „Þú hefur heyrt og lesið um fornmennina okkar, er það ekki? Já, þú manst eftir honum Gunnari á Hlíðarenda sem stökk hæð sína í öllum herklæðum og jafn langt aftur á bak og áfram. Nú er kominn fram maður nokkur sem stekkur meira en hæð sína í íþróttafötum innan húss. Hann býr ekki á Hlíðarenda í Fljótshlíð heldur á Grettisgötu í Reykjavík og heitir ekki Gunnar heldur Jón.“


Steinn Kárason

Gleðin í því smáa | Efnisyfirlit