Valgerður Ýr Walderhaug
Valgerður Ýr Walderhaug

Um þennan viðburð

Tími
Á opnunartíma
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Sýningar

Sýning | Tilbúningur

Laugardagur 14. janúar 2023 - Laugardagur 18. febrúar 2023

Uppstoppað tígrisdýr horfir á annað tígrisdýr á sjónvarpsskjánum. Í horninu er gerviblóm gert úr úrklippimyndum af hráu kjöti. Einlita blátt málverk fyrir aftan. Bjart eins og blár himininn. Froskur fylgist með aðstæðum, hann er með augu sem líkjast snigla augum. It’s the end of the world as we know it.

Valgerður Ýr Walderhaug


Verið velkomin á opnun sýningarinnar, laugardaginn 14. janúar kl. 14:00.


Á sýningunni Tilbúningur sýnir Valgerður Ýr Walderhaug verk á mörkum málverks og skúlptúrs og notar til þess fjöldaframleidda og fundna hluti úr nærumhverfi sínu sem hún umbreytir með malerískum aðferðum. Úr verður innsetning þar sem marglaga efnislegar tilraunir mynda veröld sem vísar í einhvers konar hrærigraut af raunveruleika og heim fantasíu. Vinnuaðferðir Valgerðar snúast mikið um það að blanda saman allskyns efnum úr mismunandi áttum. Öll þessi efni koma frá fjölbreyttum stöðum og eru þau ýmist fundin fyrir tilviljun eða keypt með ásetningi. Oft eru það efni sem talin eru ómerkileg í sínu hversdagslega hlutverki, svo sem umbúðir og hlutir frá nytja- og stórmörkuðum. Verkin verða til í óreiðukenndu ferli sem einkennist af tilraunum með efni og leik með samspil lita. Niðurstaðan er aldrei ákveðin í upphafi og því er það vegferðin út af fyrir sig, að vega og meta allt fram á endastöðina.

Valgerður Ýr Walderhaug fæddist árið 1991 í Reykjavík. Hún er með B.A gráðu (2017) frá Listaháskóla Íslands og MFA gráðu frá Listaháskólanum í Þrándheimi (2021). Hún hefur jafnframt stundað nám við Glasgow School of Art og Haute école des arts du Rhin í Strasbourg í Frakklandi. Árið 2018 hlaut Valgerður styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur listmálara. Síðan hún útskrifaðist úr meistaranámi hefur Valgerður verið búsett í Tromsö í Norður-Noregi og í Osló. Ári eftir útskrift hlaut hún listamannalaun í Noregi. Valgerður hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis og er sýningin Tilbúningur hennar fimmta einkasýning.

Viðburðurinn á facebook

Sýningin er opin á opnunartíma hússins.


Nánari upplýsingar veitir:
Svanhildur Halla Haraldsdóttir, sérfræðingur
svanhildur.halla.haraldsdottir@reykjavik.is | s. 411 6187