Um þennan viðburð
Kynning og markaður | Púsl á alla kanta
Það að setja saman púsluspil hefur löngum verið áhugamál sem fólk stundar hvert í sínu horni, en nú er kominn tími til að tengja fólk saman sem stundar þessa skemmtilegu iðju!
Á þessum viðburði verða í brennidepli nýjar hliðar á þessari gömlu tómstund og fáum við til okkar góða gesti:
Ágústa Dan kynnir fyrir fólki hraðpúsl, en það er ört vaxandi hluti púslheimsins. Ágústa keppti á heimsmeistaramótinu í hraðpúsli á Spáni í sumar og nú stendur til að koma á fót Hraðpúslfélagi Íslands. Happdrætti verður til styrktar stofnun félagsins og verða vinningar í boði Spilavina og fleiri.
Ásdís Hrund Ólafsdóttir segir okkur frá því hvernig er að púsla risapúsli, en hún setti saman 42.000 bita púsluspil fyrr á þessu ári.
Gestir og gangandi hjálpast að við að setja saman púsluspil og einnig stendur til boða að spreyta sig í svokallaðri púslskák, en þá skiptast þátttakendur á að koma púslbitum fyrir á réttum stað á sem skemmstum tíma.
Síðast en ekki síst verður skiptimarkaður þar sem hægt er að skiptast á púslum eða kaupa. Athugið að fá borð eru í boði og því þurfa seljendur / bíttarar að skrá sig fyrirfram með því að senda tölvupóst á berglindsh@gmail.com. Greiða þarf 1000 krónur til að taka frá borð sem eru endurgreiddar ef mætt er.
Einnig verður “hringrásarborð” þar sem hægt er að skilja eftir púsl og taka púsl eins og hver vill.
Skipuleggjendur viðburðarins eru Margrét S. Jónsdóttir og Berglind S. Heiðarsdóttir, stjórnendur í Facebook-hópnum Púslarar.
Allir púslarar velkomnir, byrjendur sem lengra komnir!