Um þennan viðburð
Sýning | Litka málar Breiðholtið
Myndlistarfélagið Litka byrjar nýtt ár með litríkri sýningu í Gerðubergi. Þema sýningarinnar er Breiðholtshverfið eins og það leggur sig. Margir félagar í Litka búa í Breiðholtinu eða tengjast hverfinu á ólíkan hátt á meðan aðrir hafa aldrei komið í hverfið. Ljóst er að margir fallegir og áhugaverðir staðir leynast í hverfinu og óhætt er að segja að niðurstaðan er einstaklega fjölbreytt og skemmtileg sýning um Breiðholtið séð með augum listmálarans.
Sýningin er á fyrstu hæð í Gerðubergi.
Litka myndlistarfélag var stofnað árið 2009 af hópi fólks sem tók þátt í samsýningu á Vetrarnótt hjá Reykjavíkurborg.Markmið félagsins er að gefa meðlimum úr öllum áttum tækifæri á að hittast og ræða saman, fá fyrirlesara, halda stutt námskeið og síðast en ekki síst að sýna saman verkin sín. Félagsmenn eru með ólíkan bakgrunn. Nokkrir hafa lokið hefðbundnu myndlistarnámi, mörg hafa sótt fjölda námskeiða bæði hérlendis og erlendis, en segja má að það sem sameini hópinn er ástríðan fyrir myndlistinni og því að mála sér til skemmtunar. Fyrir sumum er þetta áhugamál en atvinna fyrir aðra.
Félagið telur yfir 100 manns, þar af eru um 40-50 virkir meðlimir. Litka hefur haldið margar sýningar í gegnum árin, í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu, Art67, tekið þátt í viðburðum á Safnanótt, „Salon“ sýningu í Hugmyndahúsinu, Gallerý Göng, og nýlegasta samsýningin var í Kringlunni 2023, þegar tæplega 40 manns í félaginu sýndu á göngum í Kringlunnar.
Litka á Facebook
Viðburðurinn á Facebook
Frekari upplýsingar veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Gerðubergi.
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is | 6980298