Barnastund | Fíasól gefst aldrei upp
Til að hita upp fyrir væntanlegan fjölskyldusöngleik um Fíusól bjóðum við börn og foreldra velkomin í Kringlusafn. Höfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir les upp úr bókinni sem söngleikurinn er byggður á, Fíasól gefst aldrei upp, börnin sem leika Fíusól og Gauk taka svo eitt lag og þátttakendur fá að búa til sín eigin mótmælaspjöld á eftir.
Fíasól gefst aldrei upp, hún er óstöðvandi gleðisprengja, full af orku en stundum löt, skarpgreind en fljótfær og svo hugmyndarík að foreldrum hennar stendur hreinlega ekki alltaf á sama. Stelpuskottið Fíasól er fyrir löngu orðin sígild í íslenskri bókmenntasögu og á sér aðdáendur á öllum aldri.
Í vetur stígur hún loks á Stóra sviðið í Borgarleikhúsinu í nýrri leikgerð sem byggir á rómuðum skáldverkum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Hér fá áhorfendur að hitta systur Fíusólar og foreldra, ömmu og afa, besta vininn Ingólf Gauk, kennarann, alla krakkana í bekknum og síðast en ekki síst lata kjölturakkann Hansínu.
Leikstjórinn Þórunn Arna Kristjánsdóttir leiðir úrvals lið leikara og stóran og kraftmikinn barnahóp í nýjum fjölskyldusöngleik með frumsaminni tónlist hins góðkunna Braga Valdimars Skúlasonar. Til að hita upp fyrir sýninguna sem er frumsýnd 2. desember bjóða Borgarleikhúsið og Borgarbóksafnið í Kringlunni krökkum og foreldrum að hlusta á upplestur úr bókinni, lag úr söngleiknum og taka þátt í skiltagerð í anda sýningarinnar.
Nánari upplýsingar veitir:
Guttormur Þorsteinsson, deildarbókavörður
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | s. 411 6204
Halla Björg Randversdóttir, Fræðslu- og verkefnastjóri
hallabjorg@borgarleikhus.is