
Um þennan viðburð
Fræðakaffi | Jötnar og jötunkonur í norrænum goðheimi
Hverjir voru jötnar og jötunkonur í norrænni goðafræði? Í flestöllum yfirlitsritum eru jötnar sýndir sem óvinir goðanna, hálfgerðar ófreskjur sem hafa það eitt að markmiði að tortíma veröld goða og manna. Þannig er ímynd þeirra í Eddu Snorra Sturlusonar, og ekki að undra að í vitund fólks hafi hún á síðari tímum runnið saman við bergrisana og tröllin í þjóðsögunum.
Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur bregður upp miklu flóknari mynd í doktorsritgerð sinni og í bókinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi. Jötnarnir tengjast sköpun heimsins, þeir búa yfir þekkingu á rúnagaldri og vitneskju um upphaf hans og örlög. Jötnameyjar eru undurfríðar og ýmsum sérstökum eiginleikum búnar. Samskipti goða og jötna eru tíð og margháttuð, og það eru fyrst og fremst æsirnir sem beita brögðum í þeim viðskiptum. Þeir sækjast eftir fróðleik úr fórum jötna og vilja ólmir komast yfir dætur þeirra.
Ingunn hefur skoðað fjölþættar heimildir sem renna stoðum undir kenningar hennar: fornminjar, myndir á myndsteinum, skartgripi og muni af ýmsu tagi. Þegar djúpt er skoðað bendir margt til að jötnar hafi verið einhvers konar átrúnaðargoð, hugsanlega persónugervingar jarðar og náttúru á forsögulegum tíma, áður en ásatrúin varð allsráðandi í átrúnaði fólks.
Ingunn er sjálfstætt starfandi fræðikona hjá ReykjavíkurAkademíunni, auk þess að vera doktor í norrænni trú (2018) er hún mikilvirkur þýðandi jafnt fagurbókmennta sem fræðirita, bókmenntafræðingur og leikstjóri. Fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Ó sögur um djöfulskap eftir færeyska rithöfundinn Carl Johan Jensen hlaut hún íslensku þýðingaverðlaunin árið 2024.
Frekari upplýsingar veita:
Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur,
ingunn@akademia.is, s. 869 8312
Sigríður Stephensen, sérfræðingur
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is, s. 411 6230