Um þennan viðburð

Tími
10:30 - 13:00
Verð
Frítt
Bókmenntir
Fræðsla

Vá! Bækur, lesendur þeirra og allt hið voðalega í heiminum

Laugardagur 7. mars 2020

Loftlagsbreytingar voru mál málanna á síðasta ári og börn og unglingar gjarnan leiðandi í þeirri umræðu.  Á hinni árlegu ráðstefnu um barna- og unglingabókmenntir verður fjallað um birtingarmyndir loftslagsbreytinga og annarra erfiðra viðfangsefna samtímans í bókmenntum fyrir ungmenni. Einnig verður rýnt nánar í hvaða bækur standa börnum og unglingum til boða, hvaða hlutverki barna- og ungmennabækur gegna í breyttum heimi og hvernig miðla má efni, bæði í leik og í starfi, til ungra lesenda.

Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um íslenskar barna- og unglingabókmenntir.  Þórey Lilja Benjamínsdóttir Wheat, grunnskólanemi ávarpar gesti. Hildur Knútsdóttir fjallar um hvernig sé að skrifa um samfélagsmál í ungmennabókum, Guðrún Lára Pétursdóttir flytur erindi um birtingarmyndir samfélagsvandamála í barnabókmenntum, Sævar Helgi Bragason talar um mikilvægi fræðibóka og Hjalti Halldórsson og Dögg Lára Sigurgeirsdóttir kynna nýjar kennsluaðferðir. Fundarstjórn er í höndum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur. 

Engin skráning og ókeypis aðgangur.

Að ráðstefnunni standa Síung, Félag fagfólks á skólasöfnum, IBBY, SFS , Upplýsing og Borgarbókasafnið.


Dagskráin:

Þórey Lilja Benjamínsdóttir Wheat, grunnskólanemi flytur ávarp

Þórey talar frá sjónarhóli ungs lesenda; til dæmis um hversu erfitt geti verið að setjast niður og lesa þegar mikið sé að gera og um mikilvægi þess að fleiri erlendar bækur séu þýddar á íslensku.


10:45   Guðrún Lára Pétursdóttir, bókmenntafræðingur: Á báti yfir Hallærisplanið – um samfélagsgagnrýni og loftslagsvá í íslenskum ungmennabókum

Fyrsta íslenska unglingabókin, Búrið eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, var rammpólitísk samtímasaga en það hvað strax við annan tón í bókunum sem fylgdu í kjölfar hennar þar sem samfélagsgagnrýnin var að mestu á bak og burt. Nú virðist hins vegar ýmislegt benda til þess að unglingabækur séu aftur að verða vettvangur pólitískrar umræðu, ekki síst um þau málefni sem tengjast loftslagsbreytingum.

 

11:15    Hildur Knútsdóttir, rithöfundur: Vetrarhörkur og nornir – að skrifa um samfélagsmál í ungmennabókum

Á að skrifa um samfélagsmál í bókum fyrir ungmenni? Eru bækur flóttaleið frá veruleikanum eða eru þær vettvangur til að fjalla um alvarleg og erfið málefni? Á síðustu árum hefur Hildur skrifað nokkrar ungmennabækur (Vetrarfrí, Vetrarhörkur, Doddi - bók sannleikans, Doddi - ekkert rugl!, Ljónið og Nornina) og í erindinu ræðir hún á hvaða hátt bækurnar taka á erfiðum málefnum.

 

11:45    Matarhlé

 

12:15    Sævar Helgi Bragason, dagskrárgerðarmaður og vísindamiðlari: Þessi bók er alltof flókin fyrir þig! - um mikilvægi fræðibóka fyrir börn

Í dag er sennilega nauðsynlegra en oft áður að miðla vísindum til barna og kveikja forvitni þeirra um heiminn í kringum okkur. Í erindinu verður stiklað á stóru um íslenskar fræðibækur og mikilvægi þess að lesa fjölbreytt.

 

12:45    Hjalti Halldórsson, kennari og rithöfundur og Dögg Lára Sigurgeirsdóttir, kennari: Að vera læs á framtíðina – Um mikilvægi sköpunar í skólastarfi.

Hjalti og Dögg Lára segja frá Smiðjunni í Langholtsskóla. Smiðjan er lífsstíll sem snýst um að gera nemendur að ábyrgum gerendum í sínu námi. 

 

Fundarstjóri: Bergrún Íris Sævarsdóttir, rit- og myndhöfundur

 

Hér má nálgast viðburðinn á Facebook


Nánari upplýsingar veitir:

Maríanna Clara Lúthersdóttir

Verkefnastjóri – Bókmenntaviðburðir

marianna.clara.luthersdottir@reykjavik.is

S: 6952702