Kristín Ómarsdóttir
Kristín Ómarsdóttir

Um þennan viðburð

Tími
14:00 - 17:00
Verð
Frítt
Staður
Tjarnarbíó
Tjarnargötu 12
101 Reykjavík
Hópur
Fullorðnir
Liðnir viðburðir

Ritþing í Tjarnarbíói | SJÁÐU FEGURÐ ÞÍNA

Laugardagur 28. október 2023

Ritþing á vegum Borgarbókasafnsins um skáldskap og listferil Kristínar Ómarsdóttur
28. október 2023
Tjarnarbíó 

Þann 26. október, opnaði myndlistarsýning í sýningarsal Borgarbókasafns Gerðubergs,
einkasýning með myndverkum Kristínar Ómarsdóttur, til heiðurs skáldinu.


Kristín Ómarsdóttir er fædd 24. september 1962 í Reykjavík. Hún hefur skrifað innan ólíkra bókmenntategunda allt frá árinu 1985; ljóð, leikrit, skáldsögur, smásögur og býr yfir einstakri skáldskaparrödd, hefur verið afkastamikil á sínu sviði og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Fantasía skáldverka Kristínar hefur rætur líkt og tré í jörðu, áþreifanleg og djúphugul staðreynd sem allt vex af, lifir, elskar og deyr - og raunveruleiki mannanna lekur eins og segir í skáldsögunni Svanafólkið (2019). Fyrsta verk hennar, leikritið Draumar á hvolfi (1985) hlaut fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins, leikrit hennar, Ástarsaga 3 (1997) var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og skáldsagan Elskan mín ég dey (1997) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999. Þá hlaut Kristín Viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1997. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin sem leikskáld ársins fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin árið 2008. Hún hefur fengið fjölda tilnefninga til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, m.a. fyrir ljóðabókina kóngulær í sýningargluggum (2017), sem hún einnig hlaut ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna fyrir og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar og tekið þátt í sýningum. Skáldverk Kristínar Ómarsdóttur hafa verið þýdd á sænsku, dönsku, frönsku, finnsku, ensku. Árið 2018 var Waitress in Fall valin besta ljóðabók ársins hjá The Sunday Times. Á síðasta ári 2022 var skáldsagan Svanafólkið/Swanfolk útgefin á ensku í Bretlandi og Bandaríkjunum. Kristín hefur numið rússnesku, íslensku og bókmenntir við Háskóla Íslands og spænsku sem annað mál við Háskólann í Barcelona.

Ritþinginu er ætlað að gera höfundarverki Kristínar ríkuleg skil, skyggnast inn í hugarheim listamannsins og samhliða dagskrá þingsins opnar samnefnd sýning í sýningarsal Gerðubergs sem mun standa frá 26. október og út árið 2023. Á sýningunni gefur að líta myndverk Kristínar sem spanna nokkra áratuga skeið og gefa innsýn inn í fagurfræði hennar og skáldskaparheim. Sýningin er einstök að því leyti að vera fyrsta einkasýning Kristínar sem þó hefur unnið að myndverkum sínum allan sinn feril og á því orðið stórt safn verka sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings. Kristín nálgast myndsköpun sína á persónulegan máta, eru myndverk hennar samofin bæði skáldskapnum og einkalífi hennar sjálfrar. Sýningin skapar ný tækifæri til að kynnast höfundarverki skáldsins og henni sjálfri á forsendum myndlistar, en verkin búa yfir einstökum töfrum þess að vera sköpuð af persónulegri tjáningarþörf án þess að hafa sýningu sem útgangspunkt.

Stjórnandi ritþings er Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur, höfundur og fyrrum útgáfustjóri, um sýningarstjórn myndlistarsýningar sér Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, myndlistarmaður. Spyrlar ásamt stjórnanda eru Jórunn Sigurðardóttir, dagskrágerðarkona og leikari, og Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum. Tónlist er í höndum Gyðu Valtýsdóttur.

Umfjöllun um sýningu Kristínar – Smelltu hér til að opna í nýjum glugga.

 

Þau sem vilja kynna sér sögu og útgáfu ritþinga í Gerðubergi frá 1999 geta skoðað upplýsingar HÉR.

Tilvalið er að kynna sé höfundaverk Kristínar, ritaskrá, umfjallanir um bækur hennar á bókmenntavefnum.

Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Dís Jónatansdóttir, deildarstjóri miðlunar
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is  | 411 4115

Bækur og annað efni