![Magnús Sigurðsson, Brynja Hjálms og Aðalsteinn Ásberg Mynd af þremur ljóðskáldum sem koma á ljóðakaffi í Kringlunni. Á bláum bakgrunni sjáum við svarthvíta mynd af Magnúsi Sigurðssyni, Brynju Hjálms og Aðaslteini Ásberg.](https://borgarbokasafn.is/sites/default/files/styles/ding_secondary_large/public/title_image/event/ljodakaffi_timabundinn_banner.png?itok=XKnTC9TJ)
Um þennan viðburð
Ljóðakaffi | Hvernig þýðum við ljóð
Með hækkandi sól koma Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Brynja Hjálmsdóttir og Magnús Sigurðsson og ræða um skáldskapinn og þýðingar. Sérstök áhersla verður lögð á bækurnar Heyrnarlaust lýðveldi, Skartgripaskrínið mitt og Berhöfða líf sem þýðendur þeirra lesa upp úr. Við forvitnumst um skáldskapinn og þýðingarvinnuna auk þess sem við njótum léttra veitinga.
Frá 1980 hefur Aðalsteinn helgað sig ritstörfum og tónlist. Hann hefur skrifað og þýtt ljóðabækur og barnabækur en þar má m.a. nefna bækurnar um Rummung ræningja og kvæði og sögur eftir Edgar Allan Poe. Fyrsta verk Aðalsteins var ljóðabókin Ósánar lendur sem kom út árið 1977 en ellefta ljóðabók hans, Spunatíð kom út í fyrra. Þýðing hans á Heyrnarlaust lýðveldi eftir Ilya Kaminsky er nýstárleg og áhrifamikil ljóðabók sem fjallar um atburði í ónefndum bæ á stríðstímum. Þegar innrásarlið drepur heyrnarlausan dreng, verður byssuskotið það síðasta sem bæjarbúar heyra – allir missa heyrnina, en angist, reiði, skelfing og uppgjöf eru látin í ljós á táknmáli.
Fyrir sína fyrstu bók, Okfrumuna, fékk Brynja tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslanna. Fyrir ljóðabókina, Kona lítur við, hlaut Brynja tilnefningu til Maístjörnunnar. Hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2022 og sama ár hlaut hún Hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur. Fyrsta skáldsaga hennar Friðsemd kom út í fyrra. Brynja þýddi Skartgripaskrínið mitt eftir Ursula Andkjær Olsen. Bókin geymir ljóð um líffræðilegar, efnahagslegar og tilfinningalegar hringrásir, um að halda áfram lífinu og ganga í gegnum tíðahvörf, um sársauka og alsælu, ást og sorg, um stjórnleysi og Miklahvell.
Magnús fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2008 fyrir ljóðabókina Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu og árið 2013 hlaut hann Ljóðstaf Jóns úr Vör. Berhöfða líf er heilsteypt úrval af ljóðum Emily Dickinson ásamt ítarlegum inngangi Magnúsar sem hefur rannsakað ljóðlist Dickinson um árabil. Dregin er upp mynd af róttæku skáldi sem gekk gegn viðteknum samfélagsvenjum; af konu sem hlýddi kröfum eigin tilfinningalífs í trássi við ýmsa ríkjandi siði og þjónaði köllun sinni af dirfsku. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2021.
Öll velkomin!
Ókeypis er á alla viðburði Borgarbókasafnsins. Verið öll velkomin!
Nánari upplýsingar veita:
Hólmfríður María Bjarnardóttir, sérfræðingur
holmfridur.maria.bjarnardottir@reykjavik.is | 411 6202
Guttormur Þorsteinsson, sérfræðingur
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | 411 6204