Um þennan viðburð

Tími
17:00 - 19:00
Verð
Frítt
Bókmenntir
Spjall og umræður

Hinsegin útgáfa | Er hægt að lifa án fortíðar?

Þriðjudagur 16. ágúst 2022

 

Hver ákveður hvers er minnst og hvers vegna? Rithöfundurinn og listamaðurinn Simon(e) van Saarloos ræðir þessar spurningar við Elí Hörpu- og Önundarbur í tengslum við bók sína Take ‘Em Down. Í bókinni sækir van Saarloos innblástur í líf hinsegin fólks sem sagan hefur þurrkað út og hugleiðir hvort og hvernig hægt sé að lifa án fortíðar. Um leið gagnrýnir hán hvernig hið hvíta minni – þar á meðal sitt eigið – hefur tekið sumum sögum sem sjálfsögðum hlut á sama tíma og aðrar sögur hafa verið þurrkaðar út.

Að spjallinu loknu flytur Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur erindi undir yfirskriftinni Minnisvarðar: Tákn saklauss stolts eða valds og yfirráða?, auk þess sem sýnt verður brot úr myndbandinu Sögulegur andlegur titringur – geimferðaáætlun sem kemur úr smiðju samvinnuhópsins Herring, Iron, Gunpowder, Humans & Sugar (HIGHS).

Öll velkomin
Aðgangur ókeypis.

Viðburður á Facebook

Frekari upplýsingar um þátttakendur

Simon(e) van Saarloos er hollenskur listamaður og höfundur fjögurra bóka, en tvær þeirra hafa verið þýddar á ensku: Playing Monogamy (Publication Studio, 2019) og Take 'Em Down um dreifða minnisvarða og hinsegin gleymsku (Publication Studio, 2022). Van Saarloos hefur komið að alls konar áhugaverðum verkum í gegnum tíðina. Um þessar mundir vinnur hán m.a. að leikritinu The Fetus Heaven sem leikhópurinn Ulrike Quade Company frumsýnir í apríl 2023 og Against Ageism. Queer Manifesto fyrir kanadíska útgáfufyrirtækið Emily Carr University Press.

Inga Dóra Björnsdóttir er mannfræðingur að mennt og starfaði sem aðjúnkt við mannfræðideild háskólans í Kaliforníu, Santa Barbara. Eftir Ingu Dóru liggja tvær ævisögur, Olof the Eskimo Lady og Woman of Three Islands, en hún líka hefur skrifað mikið um þjóðernishyggju, kyngervi og íslensku kvennahreyfinguna og varð fyrst fræðimanna til að skoða þær þá gagnrýni, áreitni og félagslegu útskúfun sem mætti þeim íslensku konum sem lögðu lag sitt við breska og bandaríska hermenn á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni.

Herring, Iron, Gunpowder, Humans & Sugar (HIGHS) er samvinnuhópur sem hefur starfað frá árinu 2017. Hann samanstendur af jamaíska dansaranum Olando Whyte og sænsku listakonunni Rut Karin Zettergren, sem hafa m.a. leitast við að framkvæma gjörninga á stöðum sem tengjast þrælasölu með það að markmiði að skapa umræður um arfleifð og ábyrgð.

Nánari upplýsingar um viðburðinn veitir:
Dögg Sigmarsdóttir, verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdóttir@reykjavik.is