NAXOS tónlistarstreymi

Ef þú átt kort hjá Borgarbókasafninu hefur þú aðgang að Naxos Music Library (Streymi sígildrar tónlistar) og Naxos Video Library (Streymi myndbanda).

Hvernig fæ ég aðgang að Naxos tónlistarveitunum?

  • Veldu annað hvort Naxos Music Library eða Naxos Video Library
  • Sláðu inn númer bókasafnskortsins þíns (það byrjar vanalega á GE00) í reitinn efst í vinstra horninu þar sem stendur „Enter passcode“
  • Mundu að skrá þig út að lokinni hlustun (rauður „Log-Out“ hnappur efst á síðunni)

Hvað finn ég í Naxos tónlistarveitunum? 

Í Naxos Music Library (Streymi sígildrar tónlistar) finnur þú milljónir tónverka frá mörg hundruð útgáfufyrirtækjum. Auk sígildrar tónlistar er hér jazz, heimstónlist og nokkuð af dægurtónlist. Fyrir utan streymið er meðal annars hægt að nálgast textaumfjöllun um fjölmörg tónverk, æviágrip tugþúsunda tónskálda og flytjenda, leiðbeiningar um framburð á nöfnum þeirra, tónlistarorðabók, libretto úr hundruðum ópera og ýmis konar annan fróðleik um tónlist og tónlistarsögu.

Í Naxos Video Library (Streymi myndbanda) er að finna ríflega þúsund óperuuppfærslur, ballettsýningar, tónleika, tónlistarfræðslumyndir og ýmislegt annað. Auk Naxos er efnið meðal annars frá Opus Arte, Arthaus, Dacapo og EuroArts.

Bæði söfnin eru uppfærð reglulega.

Er til sérstakt app fyrir Naxos?

Já, Naxos Music Library appið er hægt að nálgast á iTunes (fyrir iOS) eða Google Play (fyrir Android). Það er ekki til app fyrir Naxos Video Library (Streymi myndbanda). 

Til að virkja appið þarftu fyrst að búa til reikning sem þú getur svo líka notað til að búa til lagalista.

Í appinu er hægt að búa til eigin lagalista, sem er svo hægt að nálgast í gegnum tölvur, spjaldtölvur, tónhlöður og snjallsíma.

En fyrst þarf að búa til reikning!

Hvernig bý ég til reikning?

  • Opnaðu Naxos Music Library og sláðu inn númerið á bókasafnskortinu þínu (byrjar á GE00) til að skrá þig inn
  • Bíddu augnablik meðan þú tengist nýjustu útgáfu NML
  • Veldu „Playlists“ af stikuröðinni til vinstri á skjánum
  • Veldu „Sign up“ efst til hægri í stikunni „Student/Member Playlists“
  • Sláðu inn umbeðnar upplýsingar og veldu „Register New Account Now“
  • Virkjaðu reikning þinn með því að smella á tengil í tölvupósti sem þú færð sendan

Eftir það getur þú alltaf skráð þig fyrst inn með skírteinisnúmerinu, og notað síðan reikningsupplýsingarnar þínar í „Login“ á stikunni „Student / Member Playlists“ til að komast í lagalistana.

Til að virkja appið slærðu inn netfangið og leyniorðið sem þú notaðir til að búa til reikninginn (hér fyrir ofan).

Þarf að tengjast netinu til að hlusta eða horfa á tónlistarefnið?

Já, einungis er um streymiþjónustu að ræða. Ekki er hægt er að hlaða efninu niður í tiltæk tæki. 

Þarf ég að skrá mig sérstaklega út eftir að ég er hætt/ur á NML og NVL?

Slökkt er á tengingu sjáfkrafa ef þú hefur ekkert aðhafst á síðunni í ákveðin tíma. Það er samt sem áður æskilegt að skrá sig út svo fleiri komist að, en ákveðinn fjöldi notenda getur haft aðgang samtímis.

Hefur þú spurningar varðandi Naxos sem er ekki svarað hér fyrir ofan? Hafðu endilega samband við okkur hér á vefnum eða sendu okkur línu á borgarbokasafn@borgarbokasafn.is.

Og að lokum má ekki gleyma því Borgarbókasafnið hefur mikið safn tónlistar á geisladiskum, vínylplötum og mynddiskum sem hægt er að hlusta á og horfa án nokkurra appa eða forrita! Í leitarglugganum hér a vefnum er hægur leikur að leita að diskum og hljómplötum, taka frá og sækja á það safn sem hentar.