Tónlist og kvikmyndir

Tónlist er lánuð út endurgjaldslaust í öllum menningarhúsum Borgarbókasafnsins nema Sólheimum. Í Árbæ, Spöng, Gerðubergi og Kringlu er fyrst og fremst að finna valið íslenskt efni og, í minna mæli, erlent efni með mismunandi áherslum eftir söfnum. Tónlist fyrir börn er að finna í barnadeildum safnanna og er þar mest áhersla lögð á íslenskt efni.

Tón og mynd í Grófinni

Mesta úrvalið er þó að finna í tón- og mynddeild, sem staðsett er á 5. hæð í Grófinni. Þar er að finna DVD diska með kvikmyndum fyrir börn og fullorðna og þúsundir titla á flestum tegundum tónlistar, íslenskrar sem erlendrar, á geisladiskum, vinýlplötum og mynddiskum. Hægt er að hlusta á tónlist í hljómflutningstækjum, ferðaspilurum og eigin tölvum. Í deildinni eru auk þess til útláns tónlistartímarit, nótur og raddskrár, að ógleymdum bókum um tónlist og ævisögum tónlistarfólks.

Kvikmyndir, að meðtöldu sjónvarpsefni, hafa verið til útláns um áratugaskeið í Borgarbókasafni. Við innkaup á myndefni er áhersla lögð á að ná til sem flestra tegunda og efnissviða. Má þar telja fræðsluefni, íslenskar myndir, klassískt efni, barna- og fjölskyldumyndir, myndir á öðrum tungumálum en ensku og margt og margt fleira. Myndefnið er á mynddiskum (DVD) og líka er talsvert úrval af myndböndum (VHS) með íslenskum texta sem nú er orðið erfitt að nálgast. Í deildinni eru líka til útláns fjöldi rita um kvikmyndir og kvikmyndagerð, að ógleymdum ævisögum kvikmyndagerðarfólks. Í Borgarbókasafninu í Kringlunni er og gott úrval rita um leiklist, þar með talinn kvikmyndaleik.

Naxos tónlistarveitan

Einnig er hægt að streyma mikið úrval af tónlist í gegnum Naxos tónlistarveiturnar sem aðgengilegar eru lánþegum safnsins. Innskráning fyrir Naxos tónlistarveiturnar

Kamesið

Þá má benda á Kamesið, sem er lítið rými innan deildarinnar. Þar er aðstaða til að sýna kvikmyndir, halda litla fundir og kynningar auk þess sem hægt er að setja upp örsýningar.

Tónleikahald

Á hverju misseri er boðið upp á tónleika í menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Jazz í hádeginu er fastur liður undir listrænni stjórn Leifs Gunnarssonar. Fylgist með viðburðadagskrá með því að smella á "Á döfinni".
Borgarbókasafnið hýsir einnig tónleika af ýmsu tagi og í Gerðubergi er hægt að leigja salinn Berg fyrir tónleikahald ýmis konar. Áhugasamir sendi línu á borgarbokasafn@borgarbokasafn.is.

Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Jakob Vigfússon, verkefnastjóri tónlistar
sigurdur.jakob.vigfusson@reykjavik.is.