Sumarlestur | Leitin að ævintýraheimum

Ferðumst um ævintýraheima barnabókanna!

Hefurðu prófað að lesa fantasíu, vísindabók, myndasögu eða sögu sem gerðist fyrir langa, langa löngu? 
Eða kannski bækur um íþróttir, dýr eða grín og glens?

Kannaðu nýja ævintýraheima í sumar. Þú færð ævintýrakortið Leitin að ævintýraheimum, ríkulega myndstreytt eftir Ara H. G. Yates, þegar þú heimsækir bókasafnið í sumar. Í hvert sinn sem þú skilar bók eða lest bók í bókasafninu getur þú safnað límmiðum úr 8 ólíkum ævintýraheimum og að lokum verður þú lestrarmeistari sumarsins!. Límmiðana færðu á almenningsbókasöfnum vítt og breitt um landið.

Þrjár leiðir til að safna límmiðum

Fara  veginn
Ef þið skoðið kortið vel sjáið þið að það er hægt að fara á milli eyjanna eftir ákveðinni leið sem byrjar neðst í vinstra horninu. Þá lesið þið bók úr hverju þema, fáið límmiða og fylgið hvítu punktalínunum yfir á næstu eyju.  Þetta hentar þeim sem vilja áskorun.

Fara sjóleiðina
Fyrir þá sem vilja fara aðeins frjálslegri leið, þá hvetjum við ykkur til að fara sjóleiðina. Þá er hægt að sigla á milli þemaeyjanna og taka þær í þeirri röð sem manni sýnist. T. d. er hægt að byrja á íþróttabók og sigla svo yfir á dýraeyjuna. 

Safna límmiðum óháð þemum
Sumarlestur á fyrst og fremst að vera skemmtilegur. Fyrir þau sem ekki vilja lesa bækur úr öllum flokkum þá má líka safna límmiðum óháð þemum. Þessi leið hentar eflaust fyrir yngstu lesendurna. Í staðinn  hvetjum  við fullorðna fólkið til þess að skoða og spjalla við börnin um það sem fyrir augu ber á hverri eyju.

Uppskeruhátíð sumarlestursins

Nú fer sumarlestrinum senn að ljúka og munum við fagna frábærum árangri með veglegri uppskeruhátíð í Borgarbókasafninu Grófinni. Þau sem hafa safnað öllum 8 límmiðunum fá þátttökumiða fyrir sumarlestarpottinn en síðasti séns til að skila inn miða er 18. ágúst til að eiga möguleika að vera dreginn út í pottinum. Verður þú heppni þátttakandinn sem verður dreginn út og færð vinning á uppskeruhátíðinni? 

Ekki örvænta þó þú náir ekki að safna öllum límmiðunum fyrir skólabyrjun. Það verður hægt fá límmiða á veggspjaldið á meðan birgðir endast.

Gleðilegt ævintýrasumar!
 

Nánari upplýsingar veitir:
Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnastjóri barna- og unglingastarfs
ingibjorg.osp.ottarsdottir@reykjavik.is | 411-6146

Fyrsta eyjan - bækur úr heimi fyrir langa, langa löngu

Önnur eyjan - bækur úr heimi grínsins

Þriðja eyjan - bækur úr heimi vísinda og tækninnar

Fjórða eyjan - bækur úr heimi spennu, ráðgátna og hryllings

Fimmta eyjan - bækur úr heimi íþróttanna

Sjötta eyjan - bækur úr heimi myndasagnanna

Sjöunda eyjan - bækur úr heimi fantasíunnar

Áttunda eyjan - bækur úr heimi dýranna

Leitin að ævintýraheimum - miðjueyjan

Miðjueyjan - Saga ritmálsins

Þegar þú hefur safnað límmiðum úr öllum átta þemaflokkunum færðu níunda límmiðann og ert þar með orðinn Lestrarmeistari sumarsins!
Við hvetjum þig til þess að skoða kortið vel, því í myndunum er að finna ógrinni af hugmyndum af bókum til að lesa. Má þar nefna bækur um víkinga, vélmenni, varúlfa, körfubolta, ofurhetjur, töfrateppi og ketti! Í myndunum er líka að finna heilmikinn fróðleik og við hvetjum ykkur til að skoða kortið með fjölskyldu eða vinum og fræðast til að mynda um sögu ritmálsins á miðjueyjunni.