Viðtal | Marvel á ekki heiðurinn að myndasöguáhuga Íslendinga
Listakonan Lóa Hjálmtýsdóttir heillaðist snemma af myndasögunni sem frásagnarformi og byrjaði ung að teikna og skrifa. Hana óraði þó ekki fyrir að hún ætti eftir að leggja myndlistina fyrir sig og verða þekktur myndasöguhöfundur seinna meir. Nú hafa Lóa og Borgarbókasafnið tekið höndum saman og bjóða teikni- og bókverkasmiðjur, undir yfirskriftinni Minningabankinn - Lifandi bókverkasafn, þar sem þátttakendur vinna með persónulegar minningar og vangaveltur út frá aðferðafræði myndasögunnar. Við settumst niður með Lóu og ræddum við hana um ferilinn, listina og framtíð myndasögunnar.
Óhætt er að segja að Lóa Hjálmtýsdóttir sé fjölhæf listakona, rithöfundur, tónlistarkona og teiknari með meiru, þótt eflaust sé hún þekktust fyrir myndasögurnar sínar. Aðspurð segist hún sjálf ekki hafa tekið sérstaka meðvitaða ákvörðun um að leggja myndasöguformið fyrir sig. Það hafi einhvern veginn þróast á þann veg.
„Ég tók ekki neina ákvörðun. Ég hef alltaf teiknað og skrifað,“ segir hún. „Ég man samt að þegar kennarinn lét okkur gera myndasögu í Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 1987 þá fannst mér mjög leiðinlegt að klára hana,“ viðurkennir hún og kveðst enn þann dag í dag eiga erfiðara með að gera lengri sögur. Því vinni hún yfirleitt með 1-4 ramma. „Þetta er ákveðið agavandamál,“ segir hún og kímir.
Moldrík af jákvæðu viðhorfi til myndasagna
Fyrir þá sem ekki þekkja til hefur Lóa í fjölmörg ár birt myndasögur á samfélagsmiðlum undir nafninu Lóaboratoríum. Hún hefur líka sent frá sér sex bækur, þar á meðal myndasögubókina Dæs og skáldsöguna Grísafjörður : ævintýri um vináttu og fjör sem var bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs, skrifað smásögur og er myndhöfundur að um það bil 30 barnabókum. Þá var leikverk samið upp úr myndasögum Lóu og sett á svið í Borgarleikhúsinu fyrir fjórum árum, svoleiðis að óhætt er að segja að list hennar hafi tekið á sig ýmsar myndir.
Að sögn Lóu komu listrænu hæfileikarnir snemma í ljós og sem dæmi má nefna að fyrsta langa sagan sem Lóa teiknaði og skrifaði var á myndlistarnámskeiði þegar hún var átta ára. „Áður hafði ég verið að teikna og bæta við texta á myndirnar,“ rifjar hún upp. „Þegar ég var unglingur þá sendi ég myndasögur í skólablöð og Blek. En ég fór ekki að vinna við þetta fyrr en þegar ég var 26 ára. Þá gerði ég myndasögur fyrir fylgiblað Moggans sem hét Málið og var meðal annars ritstýrt af Þormóði Dagssyni.“
Spurð hvað hún hafi verið gömul þegar hún byrjaði að lesa myndasögur í afþreyingarskyni segir Lóa það hafa gerst í kringum fimm ára aldurinn, eða á sama tíma og hún fór að lesa. „Pabbi las allskonar myndasögur og ég fékk alltaf nýjar myndasögur rétt fyrir jólin,“ segir hún. „Þegar ég var unglingur kynntist ég svo krökkum sem voru að lesa Sandman, Preacher, Johnny the Homicidal Maniac og fleiri unglinga-emo og -mayhem titla. Fyrir utan það bý ég svo vel að því að þekkja systkinin Úlfhildi og Hugleik Dagsbörn – sem tengjast myndasöguheiminum, hvort með sínum hætti. Þannig að ég hef alltaf verið umkringd myndasögum og er moldrík af jákvæðu viðhorfi til myndasagna,“ segir hún glaðlega.
Hvers vegna heillaði myndsöguformið?
„Fyrst voru það litirnir, teikningarnar og húmorinn,“ svarar hún. „Eftir því sem á leið þá fannst mér alltaf merkilegra og merkilegra hvað þetta er margslungið frásagnarform. Þú getur sagt svo margt í einu. Textinn segir eitt, teikningin annað og samsetningin er svo þriðja röddin og ofan á það bætist við það sem gerist á milli rammanna.“
Búið að normalísera nördakúltúrinn
Eftir að hafa fylgst með myndasögunni í nokkuð mörg ár þá segist Lóa vera orðin þeirrar skoðunar að hún standi styrkum fótum í dag. „Mér finnst bara alltaf fleiri og fleiri sýna þessu áhuga, sem er frábært því ég er mjög sólgin í sögur fólks og þeim mun fleiri sem hafa áhuga þá stækkar heimurinn og meiri líkur á því að fleiri búi til myndasögur og þá verða til fleiri sögur sem ég get hámað í mig,“ segir hún og brosir.
Spurð hvort hún telji að myndasöguáhuga á Íslandi megi að einhverju leita þakka miklum vinsældum kvikmynda og sjónvarpsþátta úr smiðju risanna Marvel og DC hugsar Lóa sig um. „Ég veit ekki hvort það hafi áhrif á lestur myndasagna. Þetta er svo ólíkt form,“ segir hún síðan. „Ætli persónurnar verði ekki almennt þekktari fyrst þær eru svona dreifðar um andrúmsloftið. Ég finn að það er búið að normalísera þennan sagnaheim. Sama á við um Star Wars. Fólk skilgreinir sig ekki jafn mikið eftir því hvort það horfi á myndir sem hefðu áður flokkast sem nördakúltúr en eru núna hluti af mjög beisik gláphegðun.“
Lóa tekur fram að sér finnst þó mjög gaman að horfa á ofurhetjumyndir og vel gerða bardaga en hún horfi hins vegar bara á myndirnar en lesi ekki bækurnar. „Það er ekki af því að mér finnist þær ekki góðar, ég er bara ekki á þeim buxunum í dag,“ flýtir hún sér að útskýra. „Ég les aðrar tegundir af myndasögum en hvort ég myndi nenna að horfa á bíómyndir eftir þeim er önnur saga.“
Nei, Lóa segist frekar rekja vaxandi áhuga fyrir myndasögum á Íslandi til annarra þátta. „Ef við pælum bara í myndasöguáhuganum á Íslandi þá myndi ég segja að hann hafi vaxið þökk sé fólki eins og Úlfhildi Dagsdóttur, sem hefur lengi unnið á Borgarbókasafninu og sá meðal annars um einstaklega flottu myndasögudeildina í Grófinni, auk þess sem hún hefur til dæmis skrifað fræðibókina Myndasagan: Hetjur, skrýmsl og skattborgarar,“ nefnir Lóa. „Nú eða Jean Posocco útgefanda sem er með útgáfuna Froskur sem gefur út myndasögur á íslensku; Gísla Einarssyni og öllu Nexus-genginu sem hefur haldið úti ótrúlegri myndasögu- og nördakúltúrbúð í fleiri fleiri ár; enskukennurum eins og Írisi í MH sem kynna nemendur sína fyrir myndasögum og síðast en ekki síst Myndlistaskólanum í Reykjavík sem hefur boðið upp á myndasögunámskeið fyrir börn og fullorðna í meira en áratug. Þetta er geggjað lífríki!“
Féll næstum í yfirlið við að sjá átrúnaðargoðið
Talið beinist þá að íslensku myndasögusenunni og hennar stöðu í alþjóðlegum samanburði. „Senan er auðvitað smá því við erum smáþjóð,“ segir Lóa, „en engu að síður eru til ótrúlegir listamenn innan hennar.
Ég meina líkindalega og stærðarlega séð ættum við ekki að hafa útungað manneskjum eins og til dæmis Hugleik Dagssyni, Elínu Eddu, Elías Rúna, Rán Flygenring og Gisparana. Ég ætla bara að fullyrða þetta eins og einhver æstur sýslumaður. En að því sögðu þá er senan alltaf að stækka. Núna kemur til dæmis reglulega út íslenskt myndasögublað sem fæst í Nexus og heitir Myndarsögur þar sem má finna nýja höfunda.“
Á Lóa sér einhverja uppáhalds íslenska myndahöfunda?
„Já, til dæmis öll ofantalin,“ svarar hún og brosir.
Af erlendum höfundum segist Lóa helst halda upp á Julie Doucet, Amanda Vähämäki, Tara Booth, Hanneriina Moisseinen, Lynda Barry, Chris Ware, Daniel Clowes, Charles Burns, Charles M. Schulz, Ivan Brunetti, Emil Ferris og Ana Galvan. „Ég gæti haldið áfram að telja í dágóða stund því að ég er froðufellandi áhugasöm manneskja,“ segir hún hlæjandi og nefnir sem dæmi að hún hafi séð Julie Doucet með eigin augum á myndasöguhátíð í Angouleme fyrr á þessu ári og legið við yfirliði.
Spennandi nýir höfundar að stíga fram
Að sögn Lóu er gríðarleg gróska í gangi í myndasöguheiminum. „Drawn & Quarterly er kanadísk útgáfa sem gefur út safnbækur og þar er gaman að kynnast nýjum höfundum,“ nefnir Lóa sem dæmi, þegar hún er beðin um að mæla með áhugaverðum myndasögum og myndasöguhöfundum.
„Svo mæli ég með að sniglast um myndasögudeildirnar á bókasöfnunum og skoða hvað er í boði. Ég veit til dæmis að það er til sjúklega mikið af Mangadóti í Grófinni og mjög gott úrval af ofurhetjubókum og ýmiskonar angst. Síðast þegar ég fór fékk ég lánað Frank og MAD og endurnýjaði kynni mín við New York Stories eftir fyrrnefnda Julie Doucet.“
Lóa bætir við að hún fylgist líka grannt með lettnesku myndasöguútgáfunni Kûs comics og finnska kollektífinu Kutikuti. Þar megi alltaf kynnast nýjum höfundum.
„Það eru bara alltaf nýjar týpur að spretta upp. Enda hefur myndasagan einhvern veginn endalausa möguleika til að útvíkka sig og virðist alltaf vera ný og fersk,“ bendir hún á, „svona eins og fólk sem er ungt í anda þrátt fyrir að hafa áratuga reynslu.“
Áhugavert að skoða sína sögu sem efnivið
Nú stendur Lóa fyrir teikni- og bókaverksmiðjum í samstarfi við Borgarbókasafnið, þar sem þátttakendur nota eigin reynslusögur sem efnivið og beita aðferðum myndasögunnar við að vinna úr minningum. Hvernig leggst verkefnið í hana?
„Vel, að sjálfsögðu, því ég er bjartsýnismanneskja og afar áhugasöm um sögur fólks,“ svarar hún létt í bragði. Hún bætir við að það sé mjög áhugavert að skoða sína eigin sögu og horfa á hana sem efnivið. „Þá færðu stundum fjarlægð á efnið,“ útskýrir hún, „og getur séð minningar í nýju ljósi.“
Hefði Lóu órað fyrir að hún myndi dag einn standa fyrir smiðjum af þessu tagi?
„Mínir órar eru ekki mjög líklegir til að raungerast þannig að ég verð að svara þessu neitandi. Ég er meira svona Kalli og sælgætisgerðin-týpa.“
En er hún bjartsýn á framtíð myndasögunnar?
„Já, framtíð hennar er skínandi björt eins og glæný pappírsörk á sólríkum stað.“