Sigga Björg Sigurðardóttir er lesandinn
Lesandinn er Sigga Björg Sigurðardóttir

Lesandinn | Sigga Björg Sigurðardóttir

Sigga Björg Sigurðardóttir, myndlistarmaður, er lesandinn að þessu sinni. Hún sýnir um þessar mundir í Gerðubergi, sýningin ber titilinn Stanslaus titringur, en hún komst í fréttirnar nýlega vegna skemmdarverka sem voru unnin á henni. Sigga Björg lét þó ekki deigan síga og lagfærði verkin og sýningin hefur nú opnað á ný.  Verk hennar dansa á mörkum súrrealisma og við vorum forvitin að vita hvað Sigga Björg er að lesa og hvaða bækur hafa haft áhrif á hana. 

Raunveruleikinn hefur aldrei höfðað mikið til mín svo ég dregst mest að bókum sem myndu e.t.v. flokkast sem töfraraunsæi eða hreinn súrealismi. Þó inn á milli les ég einn og einn krimma eða draugasögu sérstaklega yfir sumarið þegar birtan úti er í hámarki. Ég hef gefið upp alla von um að geta grúskað og lesið fræðibækur í þessu lífi svo ég les næstum eingöngu skáldsögur.

Ef ég á að nefna einhverjar bækur sem hafa haft mikil áhrif á mig þá myndi ég fyrst af öllu nefna Frankenstein eftir Mary Shelley. Það er saga sem ég las fyrst fyrir ca 10 árum síðan og hef lesið reglulega síðan. Næst myndi ég nefna valin verk og örsögur eftir Daniil Kharms, Today I Wrote Nothing og smásögur eftir Lydiu Davis.

Auk þess er í miklu uppáhaldi hjá mér trílógían His Dark Materials eftir Philip Pullman. Þó er ég ennþá að melta nýjustu bækurnar í þeirri seríu, Book of Dust (vol.1 og 2) og ekki viss hvort ég leggi í þriðju bókina sem er ennþá óljóst hvenær kemur út, en ætli ég þurfi ekki að lesa hana til að klára seríuna.

Sú bók sem kom mér mest á óvart á síðustu árum er sennilega Killing Commendatore eftir Haruki Murakami. Ég átti erfitt með hana og það tók mig marga mánuði að klára hana á sínum tíma. Svo um það bil ári seinna gat ég ekki hætt að hugsa um þessa sögu og án þess að ég áttaði mig á því þegar ég las hana, hafði hún einhvern veginn brennt sig inn í djúpminnið hjá mér. Þetta er þar af leiðandi mín uppáhalds Murakami bók þó það hafi tekið mig heilt ár að átta mig á því.

Bókin sem ég las síðast heitir The Polyglot Lovers eftir sænska höfundinn Linu Wolff, mjög flott skáldsaga sem ég get mælt með. Svo var ég í vikunni að byrja á að lesa Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu og ég er spennt að halda áfram með hana.

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:34
Materials