Lana Kolbrún Eddudóttir. Ljósmyndari: Dagur Gunnarsson.

Lesandinn | Lana Kolbrún Eddudóttir

Lana Kolbrún Eddudóttir varð læs þriggja ára og er af þeirri kynslóð barna sem grét yfir því að mega ekki taka nema 10 bækur í einu í Bókabílnum. Hún er sagnfræðinemi við Háskóla Íslands en var lengi dagskrárgerðarmaður á Rás 1 og á kafi í tónlist, einkum jazzi.

Forfallinn sci-fi aðdáandi

Ég fæddist 1965, í miðri gullöld geimferða, þegar sovésku geimfararnir Júrí Gagarín og Valentína Tjereskova svifu fyrst allra um himinhvolfin háu og kveiktu áhuga margra barna og unglinga á geimnum og öllu því óþekkta sem leyndist þar úti. 

Sem barn las ég gamlar unglingabækur föður míns um Tom Swift og heillaðist af öllum vísindauppfinningunum í bókum á borð við Rannsóknarstofuna fljúgandi, Snúðkoptann og Djúphafskúluna. 

Tinni var sömuleiðis mikill uppáhalds ferðafélagi og engar bækur voru betri í þeim flokki en tunglferðabækurnar Eldflaugastöðin og Í myrkum Mánafjöllum. Þegar ég var að nálgast unglingsárin sá ég upphaflegu Star Trek þættina í sænsku sjónvarpi og hef verið forfallinn sci-fi aðdáandi síðan. 

Í dag les ég nánast eingöngu bækur á ensku og aðallega vísindaskáldsögur og fantasíur. Borgarbókasafnið í Grófinni er mitt vatnsból og þangað kem ég reglubundið til að skoða rekkana með nýjustu bókunum. Ef bækurnar berast ekki nógu hratt fer ég á hinn helgistaðinn, bókabúðina Nexus, og leyfi mér að kaupa fáeina gullmola. Hefði Nexus verið til þegar ég var unglingur, hefði ég búið þar allan sólarhringinn. 


Ég les sitjandi uppi í rúmi. Þannig endar hver einasti dagur í mínu lífi og ég hlakka alltaf jafn mikið til þeirrar stundar. Það jafnast ekkert á við að lesa gott ævintýri.

Geimóperugersemar

Uppáhaldshöfundurinn minn er skoski snillingurinn Iain M. Banks. Culture bókaflokkur hans trónir fyrir miðju í mínum bókaskáp og verður seint eða aldrei toppaður í heimi vísindaskáldsagna. Það var mikill skaði þegar Banks lést langt fyrir aldur fram, árið 2013. Ég mæli með Player of Games fyrir þau sem eru að koma ný inn í Culture-heiminn en annars eru þær allar góðar og AI (artificial intelligence) karakterar Banks eru stórfenglega skít-húmorískir sem og nöfnin á geimskipunum. Af öðrum sci-fi bókum Banks, sem ekki tilheyra Culture-flokknum, vil ég nefna Feersum Endjinn en hluti hennar er skrifaður á svo skrýtinni ensku að það verður eiginlega að lesa bókina upphátt til að skilja hana. Allar þessar gersemar eru til á Borgarbókasafninu í Grófinni.


Velski rithöfundurinn Alastair Reynolds er líka hátt skrifaður hjá mér og af bókum hans vil ég nefna þríleikinn Poseidon‘s children: Blue Remembered EarthOn the Steel Breeze og Poseidon's Wake. Í þeim er Afríka orðin voldugt tækni- og geimferðaveldi og stórkostleg greind afrískra fíla kemur mikið við sögu í könnun nýrra heima. 

Þriðji geimóperuhöfundurinn er svo Bretinn Adrian Tchaikovsky. Hann hefur skrifað margar bækur en hjá mér er tvennan Children of Time og Children of Ruin í sérstöku uppáhaldi. Þar eru dýr í stóru hlutverki en af tillitsemi við viðkvæma lesendur læt ég það eiga sig að nefna hvaða dýr. Hrikalega flott uppbyggðar sögur. Önnur bók eftir Tchaikovsky sem er líka vert að nefna er Cage of Souls. Vissulega vísinda-skáldsaga en þó fyrst og fremst mögnuð stúdía um manninn.
 


Heillandi 19. aldar fantasíur

Nýr höfundur sem hefur heillað mig mikið á síðustu misserum er hin breska Natasha Pulley. Bækur hennar um úrmakarann Keito Mori eru 19. aldar fantasíur með sagnfræðilegu steam punk ívafi sem gerast í London, Cornwall, Perú og Japan. Borgarbókasafnið á allar þrjár bækurnar: The Watchmaker on Filigree Street, Bedlam Stacks og The Lost Future of Pepperharrow. Alveg heillandi bækur.

UppfærtÞriðjudagur, 18. janúar, 2022 16:27
Materials