Jakub Stachowiak, skáld

Lesandinn | Jakub Stachowiak

Jakub Stachowiak er bréfberi, skáld og ritlistarnemi með BA gráðu í íslensku sem öðru máli. Hann er pólskur og fluttist til Íslands árið 2016 til að læra íslensku. Á þessu ári fékk hann nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handrit að ljóðabók. Nýlega kom síðan út ljóðabókin Næturborgir. Ljóð hans birtust einnig í ljóðasafninu  Pólífónía af erlendum uppruna, sem er safn erlendra skálda búsett á Íslandi.

Um Næturborgir:

Næturborgir er heilsteypt ljóðabók sem hverfist um sorg, söknuð, borgina og skáldskap. Þar er á áhrifaríkan hátt slegið saman hversdagslegum myndum og nýstárlegu tungutaki. Ljóðin tjá sorg og ljúfsárar minningar tengdar henni á persónulegan hátt en eiga jafnframt í áhugaverðu samtali við íslenska ljóðagerð tuttugustu aldar.

 

Skínandi og stílhreinn prósi sem hvíslar blíðlega í eyra

Til eru bækur sem bera með sér ljós. Birtu sem síast gegnum síðurnar og hlýjar manni um hjartarætur. Kynslóð eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur er svoleiðis verk – stílhreint og orðsterkt. Stundum er það glettilega þjóðsagnakennt, stundum skínandi ljóðrænt. Dagljóst er að á bakvið bókina býr skáld. Og ekki bara hvaða skáld sem er, heldur skáld vonarinnar. Skáld sem beygir sig niður að lesandanum gegnum vel mótaðar sögupersónur sínar og hvíslar blíðlega í eyrað á honum að allt verði í lagi að lokum.


Meistaraleg hugsun með blöndun forma

Mér dettur aðeins eitt annað íslenskt skáld sem er slíkum hæfilekum búið – Steinunn Sigurðardóttir. Hennar nýjasta verk, Systu megin - leiksaga, sýnir  það svo sannarlega. Steinunn miðlar hugsunum Systu, sem er aðalpersóna bókarinnar, með blíðri nákvæmni og sérstakri fyndni sinni. Ákvörðun um að blanda saman leikrita- og prósaformi er meistaraleg. Leikritaþættir hægja á frásögninni á vel heppnaðan hátt.
 

Tærar ljóðmyndir

Af nýútkomnum ljóðabókum vil ég mæla með litlu verki sem nefnist Gríseyjar, ósýnilegt landslag eftir Móheiði Hlín Geirlaugsdóttur. Þessi bók er gefin út í Pastel ritröð og geymir eftirminnileg ljóð með tærum myndum þar sem mótíf eyjunnar er fyrirferðamikil. Móheiður vitnar í skáldskap föður síns, Geirlaugs Magnússonar, en stendur samt sterklega á eigin orðafótum. Talandi um Geirlaug Magnússon þá er alltaf óhætt að mæla með sígildu ljóðaúrvali orðameistarans gamla, 100 ljóð.

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:34
Materials