Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikstjóri

Lesandinn | Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir, leikskáld og rithöfundur, er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum. Hún vann í mörg ár í leikhúsi sem leikstjóri, dramatúrg og höfundur og hefur skrifað skáld- og sannsögur, ljóð og leikrit. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2003 fyrir sannsöguna Að láta lífið rætast - ástarsaga aðstandanda. Ljóðaflokkurinn Dádýraveiðar kom út á þessu ári í tvímála útgáfu í Bandaríkjunum og nýjasta skáldverk hennar, sem flokkast sem sannsaga, nefnist Meydómur.Sígild verk og sterkar fyrirmyndir
 

Ég hef aldrei verið alæta á bókmenntir og vel mjög nákvæmlega allt sem ég les. Oftast eru það skáldsögur og ljóð og þannig hefur það verið allt frá því áhugi minn vaknaði fyrir alvöru á bókmenntum á unglingsárunum.

Áhrifavaldarnir hafa verið margir en þar vil ég nefna Halldór Laxness og skáldsögu hans Sölku Völku sem ég átti svo auðvelt með að skilja þegar ég las hana fyrst fjórtán ára gömul. Síðan komu atómskáldin og smásögur Svövu Jakobsdóttur. Á tímabili tók leikhúsið yfir og ég las mikið af leikritum og hreifst aðallega af mannþekkjaranum Tsjékov.   


Ný kynslóð skálda og Jane Eyre frá 19. öld

Á undanförnum tíu árum hefur líf mitt að meira eða minna leyti verið helgað bókum og lestri þar sem ég hef verið kennari við meistaranámið í ritlist í Háskóla Íslands. Þá hef ég eðlilega lesið mikið eftir nemendur sem í dag eru að mynda nýja kynslóð rithöfunda og skálda á Íslandi. Meðal þeirra eru Þóra Hjörleifsdóttir sem skrifaði Kviku, bók um sjúka ást og Halla Þórlaug Óskarsdóttir með ljóðsöguna Þagnarbindindi um sársauka og missi.

Með ritlistarkennslunni hefur sjóndeildarhringur minn víkkað og ég hef fengið aðgang að höfundum og verkum sem ég þekkti ekki til áður eða hafði aldrei lesið eins og nítjándu aldar skáldsöguna Jane Eyre eftir Charlotte Bronte. Ég varð yfir mig hrifin af ungu, sjálfstæðu konunni sem Bronte lýsir svo vel og reyndar af öllum kvenlýsingum hennar.
 

Heillandi skáldsögur sem geta af sér skapandi hugsun

Ég reyni að fylgjast með því sem er að gerast hverju sinni en les ekki endilega jólabækurnar fyrr en eftir jól eða nokkrum árum síðar. Svo var það með fyrstu skáldsögur Sigrúnar Pálsdóttur Kompu og Delluferðina sem ég heillaðist af og nú liggur nýja bókin hennar Dyngja á sófaborðinu hjá mér.

Allt sem ég les er að vissu leyti undirbúningur fyrir mína eigin sköpun og skrif og þannig er það með ungversku skáldsöguna Dyrnar eftir Mögdu Szasbo í þýðingu Guðrúnar Hannesdóttur um dularfullt og geggjað samband milli tveggja kvenna.


Þungavigt ársins kryfur samtímann

Að lokum má ég til með að nefna þungavigtarbók ársins, tímamótaverkið Ljósgildran eftir Guðna Elísson sem er á við nokkrar skáldsögur, ljóðabækur og kvikmyndir. Það er alveg bráðhollt að lesa hnullunga sem kryfja samtíma okkar og menningu eins og Guðni gerir í Ljósgildrunni á meistaralegan hátt.  

 

 

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:37
Materials