Lesandinn | Gísli Magnússon
Gísli Magnússon er tónlistarmaður, fílólóg, rússneskufræðingur og hálfgildings bókmenntafræðingur að sögn. Hann hefur daflað við skriftir síðan hann hafði afl til að valda penna. Skrifað eitt og annað; leikrit, örsögur, útvarpsþætti, pistla en einna helst dægurlagatexta fyrir lög með gímaldin, sem hafa einnig ratað á plötur með 5tu herdeildinni. Nýjasta breiðskífan frá árinu 2020 ber heitið: gímaldin og Haffi syngja rímur. Þar spila og kyrja þeir Gísli Magnússon, Hafþór Ólafsson og Þorvaldur Gröndal. Þá er Gísli bókavörður á bókasafninu á Höfn og skrifar reglulega um nýjar bækur á safninu á síðu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.
Rímur og vikivakar
Gísli mælir með rímnakveðskap og bragfræði. Hér eru helstu bækur sem hann hefur verið að garfa í: Sýnisbók íslenskra rímna, Kvæðasafn eftir íslenska menn frá miðöldum og síðari öldum, Fernir forníslenskir rímnaflokkar, Rímnavaka: Rímur ortar á 20. öld, Aristómenesrímur eftir Sigurð Breiðfjörð, Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur.
Þessar sex bækur voru allar ómetanlegar þegar verið var að vinna lýrik fyrir gímaldin og Haffi syngja rímur, sem er nýjasta breiðskífa mín. Bæði hvað varðar rímur og vikivaka sem unnin voru trú formi og líka þá bragi sem voru lausari í háttum en reynt var að undirstrika einhverskonar skyldleika við hefðina.
Bækurnar hafa ekki farið af náttborðinu enda hafa fleiri verkefni fylgt á eftir þar sem þekking á formum og bragsögu var ekki alskostar gagnslaust. Allra nýjasta bókin sem bættist á leslistann er Hrynjandi íslenzkrar tungu sem ég er geipilega spenntur fyrir. Einnig greinar eftir Óskar Halldórsson sem ég hafði ekki séð áður.
Að borða hugsjónir
Af dagdjobbslesningu er sú bók sem hefur fangað mig hvað mest á árinu, Að borða Búdda: Líf og dauði í tíbeskum bæ, eftir Barböru Demick. En ég sumsé varða bækur á daginn á bókasafninu Höfn – og þá hendir maður stundum saman í smáræðis meðmæli og birtir:
„Spurningin „geturðu borðað hugsjónir þínar?“ – kemur ávallt aftur og
aftur upp, einsog í þessari dæmisögu um mótmæli sem nemendur í Meruma
stóðu fyrir í skólanum sínum. Þau mættu í mötuneytið, tóku mat sinn og
fleygðu í ruslið – sem mætti ætla að sé höfuðsynd í slíkum
trúarbrögðum sem svo mjög leggja uppúr eðlilegri hringrás náttúrunnar.
Persónan sem vitnar þessa daga fyrir bókina lenti í vondri stöðu því
hún hafði ekki nært sig nógu vel síðustu dagana fyrir hungurstöðuna og
neyðist tilað fara útí sjoppu og kaupa sér snakk, sem segir doldla
sögu um togstreituna milli þarfa líkamans og hugsjóna okkar og
trúarbragða.“
Úr rýni Gísla í Að borða Búdda af vef bókasafnsins á Höfn.
Borgarbóksafnið geymir flestar þær bækur sem Gísli hefur verið að garfa í og mælir með og jafnframt tónlist eftir gímaldin, sjá hér að neðan. Bækur og tónlist má að sjálfsögðu taka frá, lána, lesa og hlýða á!