Brynja Hjálmsdóttir

Lesandinn | Brynja Hjálmsdóttir

Brynja Hjálmsdóttir hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Þegar dagar aldrei dagar aldrei. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabækurnar Okfruman (2019) og Kona lítur við (2021) og átt skáldverk í fjölda safnrita og tímarita. Brynja hefur hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða og verið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar. Meðfram ritstörfum hefur Brynja starfað sem bóksali, kennari, textasmiður og gagnrýnandi.

Það er alltaf forvitnilegt að vita hvað höfundar eru sjálfir að lesa og hvar þeir sækja sér innblástur. Brynja var meira en til í að deila því með okkur. 

Ég er nú gjarnan að lesa nokkrar bækur í einu, gjarnan þá eina á pappír, eina á lesbretti og eina á hljóðbók.

Nú er ég að lesa smásagnasafn eftir Nikolaj Gogol, sem nefnist Pétursborgarsögur. Það er reglulega skemmtileg bók, hún inniheldur sögur eins og Nevskij Prospekt, Dagbók vitfirrings, Kápuna og Nefið. Gogol kann nú aldeilis að bregða á leik, sem er mér að skapi!

Hljóðbókin sem ég hlustaði á síðast heitir Entangled Life og hún er eftir Merlin Sheldrake (tilkomumikið nafn). Hún fjallar um undraveröld sveppa en eins og allir vita eru sveppir furðulegustu og jafnframt mest töfrandi sköpunarverk veraldar. Ég mæli mikið með þessari bók fyrir alla bara, sveppasérfræðinga sem og amatöra! Samhliða lestrinum hef ég svo verið að rækta ostrusvepp í fötu. Hann nærist á myrkri, raka og kaffikorgi. Ræktunin hefur gengið eins og í sögu og ég hef uppskorið ljúffenga sveppi, sem og þá hreinu og óspilltu ánægju sem felst í að rækta sinn eiginn mat.

Svo hef ég legið dálítið í myndasögum, las hið sögufræga meistaraverk Maus eftir Art Spiegelman á dögunum og hef líka hægt og bítandi verið að þræða mig í gegnum hinn blóði drifna bókaflokk Berserk eftir Kentaro Miura.

Má svo til með að nefna nokkrar af bestu bókum sem ég las á síðasta ári. Af íslenskum skáldsögum er Merking eftir Fríðu Ísberg fremst í flokki. Ég hreifst líka mikið af bókinni Mr. Loverman, eftir Bernardine Evaristo en hún er höfundur bókarinnar Stúlka, kona, annað, sem hefur farið sigurför um heiminn og er sömuleiðis geislandi góð. Að lokum nefni ég Blomsterdalen eftir grænlenska höfundinn Niviaq Korneliussen. Hreint út sagt mögnuð bók sem ég vona að komi skjótt út á íslensku svo fleiri geti notið!

Merki
UppfærtFimmtudagur, 8. september, 2022 14:03
Materials