Anna Sigríður Helgadóttir söngkona
Anna Sigríður Helgadóttir söngkona

Lesandinn | Anna Sigríður Helgadóttir

Lesandinn að þessu sinni er Anna Sigríður Helgadóttir söngkona , sem hefur boðið gestum og gangandi upp á skemmtilegar söngstundir í Borgarbókasafninu Árbæ þar sem ungir sem aldnir sameinast í söng. Hún mun taka upp þráðinn í haust og bjóða upp á þrjár söngstundir og það er því um að gera að fylgjast með dagskránni er nær dregur. Við fengum Önnu Sigríði til að segja okkur frá nokkrum af sínum uppáhaldsbókum. 

Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien

Þvílík upplifun það var þegar ég las fyrstu bókina, ég sogaðist inn í hana. Á þeim tíma ferðaðist ég allt með strætó og þar sem þetta var fyrir tíma GSM síma, þá var ég alltaf með bók með mér sem ég las á meðan á ferðalaginu stóð. Ekki veit ég hversu oft ég gleymdi mér og missti af stoppistöðinni minni svo ég þurfti að fara annan hring. Við Ingó bróðir minn vorum að lesa sama eintakið af síðustu bókinni á sama tíma og við þurftum að semja um það hvort okkar fengi að hafa bókina þann daginn. Þessari innlifun kynntist ég svo aftur þegar ég fór að lesa Harry Potter, áratugum seinna.

Harry Potter eftir J.K. Rowling

Ég las allar bækurnar um Harry Potter um leið og þær komu út (á ensku). Ég man, ég gat varla beðið eftir næstu bók, mér fannst þær svo spennandi. Svo komst ég yfir lestur Stephens Fry (breska leikarans) á öllum bókunum á hljóðbók og hef ekki tölu yfir þau skipti sem ég hef hlustað á þær. Mér finnst svo stórkostlegt að hægt skuli vera að skapa þvílíkan heim, þvílíkar persónur, þvílíkar tilfinningar, í hvert sinn sem ég hlusta á hann Stephen lesa og leika þessar sögur, þá hverf ég inní þær. Hvernig höfundinum hefur tekist að búa til þennan heim, með öllum þessum persónum og söguþræði í gegnum alla söguna, er ótrúlegt. Ég er enn að uppgötva nýja hluti í sögunni. Ég veit hún á eftir að endast mér lengi enn.

Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren

Bróðir minn Ljónshjarta er ein fallegasta bók sem ég hef lesið. Þar lýsir Astrid Lindgren því fegursta og líka því ljótasta sem býr í manneskjunni. Samband þeirra bræðra, Snúðs og Jónatans, er svo fallegt og óspillt og heiðarlegt og tært og á milli þeirra ríkir algjört traust. Og svo eru það persónurnar í Kirsuberjadal og í Þyrnirósadal, allar frekar vænar á yfirborðinu en mitt í millum þeirra leynist þó svikarinn, sem er tilbúinn að svíkja vini sína fyrir peninga og völd. Þá kemur ótrúlegt hugrekki Jónatans í ljós og einmitt fleiri líka. “En það er ýmislegt sem maður verður að gera, annars er maður engin manneskja heldur bara lítið skítseiði” Eftir ótrúleg ævintýri, ekki bara góð heldur líka vond, hafa þeir bæðurnir, ásamt öðru góðu fólki, komið Þengli og vonda drekanum henni Kötlu fyrir kattarnef, færast þeir aftur á annað tilverustig, Nangilima, þar sem ennþá var tími varðeldanna og ævintýranna.

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:50
Materials