Einar Már Guðmundsson, rithöfundur

Bókmenntavefurinn | Einar Már Guðmundsson

[…] enda leit ég á sjálfan mig sem lærisvein ljóðskálda sem töluðu bara við sjálf sig eða engan og vindinn, en sögðu samt heilmikið um heiminn.
                                                                                                                                                                 Einar Már Guðmundsson: Passamyndir (bls. 192)

Á þessu ári birti Bókmenntavefurinn nýja yfirlitsgrein um verk Einars Más Guðmundssonar, sem er fæddur í Reykjavík 18. september 1954. En fyrsta bók hans, Er nokkur í kórónafötum hér inni, kom út árið 1980. Nýja yfirlitsgreinin spannar verk frá árinu 2000 og til 2022. Það er Þorgeir Tryggvason sem fjallar þar vítt og breitt um verk Einars, um sögumanninn og söguefni hans og segir samspil höfundar, sögumanns og söguefnis ávallt mikilvægt og Einar hafi sýnt það vel í bókum sínum. En efniviður hans og form á það til að vega salt milli skáldsögu, sannsögu og sögulegrar skáldsögu.

Frá og með Englum alheimsins (1987) hefur skáldskapur Einars í óbundnu máli leynt og ljóst byggt á „sögulegu“ efni, ýmist (oft mjög lauslega) úr fjölskyldusögu hans, minningum eða (hin síðari ár) skriflegum heimildum úr fjarlægri fortíð. Sjálfur birtist hann sem persóna í Rimlum hugans (2007) og margar sagnanna í Kannski er pósturinn svangur (2001) virðast einnig bein skrásetning raunverulegra atvika úr lífi höfundar, þó þar bregði líka fyrir fólki sem á sér sennilega ekki tilveru utan bóka Einars Más.
                                                                                                                                                                          Þorgeir Tryggvason, Bókmenntavefurinn

Um Rimla hugans: ástarsaga, skáldverk eftir Einar Má frá árinu 2007:

Hér vindur ólíkum söguþráðum fram. Í einum þeirra segir Einar Már frá glímu sinni við alkóhólisma, um bataferli undir handleiðslu SÁÁ og reynslu hans af hugmyndafræði AA-samtakanna. Í öðrum þræði fylgjumst við með bréfasamskiptum tveggja fíkla, Einars Þórs og Evu. Einar Már hefur kynnst Einari Þór í gegnum baráttu sína við fíknina, en þegar sagan gerist situr sá síðarnefndi á Litla-Hrauni og bíður dóms fyrir fíkniefnamisferli. Í bréfum sínum rifja Einar Þór og Eva upp fortíð sína, og þroska og styrkja um leið samband sitt og undirbúa framtíð sína.
        Þó margt í Rimlum hugans hafi sterkt sannsöguyfirbragð er Einar Þór mjög „Einarsmáslegur“ karakter.
                                                                                                                                                                                  Þorgeir Tryggvason, Bókmenntavefurinn

Það er um að gera að lesa greinina í heild sinni á Bókmenntavefnum sem og að næla sér í skáldsögur og ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar á Borgarbókasafninu.

UppfærtFöstudagur, 30. september, 2022 13:56
Materials