„Gamlar konur gera mikið af því að prjóna og sauma. Ég er alveg hætt því en bækurnar veita mér gleði,“ segir Guðrún Ásmundsdóttir leikkona.

Bókin heim | „Ég get eiginlega ekki lýst því hvað ég er ánægð“

Guðrún Ásmundsdóttir leikkona gæti ekki hugsað sér lífið og tilveruna án bóka. Hún segist því vera hæstánægð með þá þjónustu Borgarbókasafnsins að geta fengið heimsent lesefni, hljóðbækur og fleira.

„Ég hef haft mikla ánægju af því að hafa þessa þjónustu. Já ég get eiginlega ekki lýst því hvað ég er ánægð með hana. Þetta er bara alveg stórkostlegt framtak og þýðir svo mikið fyrir fólk á efri árum.“

Þetta segir Guðrún Ásmundsdóttir leikkona um heimsendingarþjónustu Borgarbókasafnsins, Bókin heim. Með Bókinni heim er hægt að fá heimsent lesefni, bækur og tímarit, eða tónlist og hljóðbækur á geisladiskum. Þjónustan er ætluð þeim sem af einhverjum ástæðum eiga ekki heimangengt og er ókeypis fyrir þau sem eiga kort hjá bókasafninu, en 67 ára og eldri og öryrkjar eiga rétt á bókasafnskorti án endurgjalds. Þjónustan hefur verið í boði allt frá 1974. Guðrún hefur nýtt sér hana frá árinu 2016 og fær mestmegnis hljóðbækur á geisladisk sendar heim.

„Þessar sendingar frá safninu með hljóðbókum eru algjör fjársjóður. Þetta eru bækur sem starfsfólk safnsins mælir með og ég hef ekki enn fengið senda „vonda bók“, enda vita þau á safninu hvað þau syngja. Fyrirkomulagið er alveg frábært,“ segir Guðrún um þjónustuna.

Þjónustunni er þannig háttað að starfsmaður safnsins aðstoðar lánþega við að finna efni til að lesa eða hlusta á.  Að sögn Guðrúnar eru sendingarnar á átta vikna fresti.

„Hingað kemur alltaf sami maðurinn með kassa fullan af efni á ákveðnum tíma. Hann hringir alltaf á undan sér til að fullvissa sig um að einhver sé heima. Þetta er indælismaður sem er orðinn góður heimilisvinur. Það er mjög notalegt að fá hann hingað til mín. Hann veit hvað þessar sendingar frá safninu eru mér mikils virði,“ segir hún glöð í bragði. „Svo er þetta svo vel frágengið. Maður fær bara kassa sendan og getur valið úr góðu efni.“


„Maður hefur þessa vini hjá sér, bækurnar“

Spurð hvers konar bækur verði helst fyrir valinu segist Guðrún vera hálfgerð alæta á bókmenntir en játar að hún heillist þó kannski einna helst af skáldskap. Nýlega hafi hún hlýtt á Karamazov-bræðurna eftir Fjodor Dostojevskí og skemmt sér konunglega. Núna sé hún að hlusta á áhugaverðan geisladisk um Dalai Lama.

„En annars er ég mest fyrir skáldsögur og er alltaf með bunka á náttborðinu mínu. Hef voða gaman af þessum íslensku höfundum og krimmum. Les Arnald Indriðason alveg upp til agna,“ segir hún glettin.

Eru einhverjir sérstakir höfundar í uppáhaldi?

Guðrún hugsar sig um. „Fyrst þú spyrð þá dettur mér í hug séra Friðrik Friðriksson,“ svarar hún svo. „Í gegnum safnið fékk ég tvær bækur eftir hann um drenginn Sölva. Það var í raun alveg stórkostlegt að þessi tvö bindi skyldu reka á fjörur mínar fyrir tilstuðlan safnsins, því ég las þær sem unglingur og þær eru í miklu uppáhaldi.“

Hefur Guðrún alltaf verið mikill lestrarhestur? 

„Já, alveg frá því ég man eftir mér,“ segir hún glaðlega, „enda alin upp á heimili þar sem allt var fullt af bókum. Núna er ég gömul kona í stóru húsi með risastórt bókasafn og horn í borðstofunni, þar sem ég sit og hlusta á hljóðbækur. Mér finnst það frábært, til dæmis þegar ég fæ mér að borða, því fyrir vikið er maður aldrei einn. Maður hefur þessa vini hjá sér, bækurnar. Já þær verða vinir manns. Ég held að tilveran væri voða leiðinleg ef ekki væru bækur,“ segir hún og bætir við að því verði þessi þjónusta safnsins við eldri borgara seint fullþökkuð.