Vilhjálmur Andri Einarsson
Vilhjálmur Andri Einarsson, eða Andri eins og hann er gjarnan kallaður, til hægri, ásamt átrúnaðargoðinu Wim Hof, sem hann segir hafa breytt lífi sínu til betri vegar.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Þegar ég las þessa bók byrjuðu alls konar góðir hlutir að gerast“

Vilhjálmur Andri Einarsson var illa þjakaður af alkóhólisma, þunglyndi og verkjum vegna alvarlegs slyss þegar hann kynntist aðferðafræði Hollendingsins Wim Hof, sem hann segir hafa breytt lífi sínu til betri vegar. Vilhjálmur Andri, eða Andri eins og hann er iðulega kallaður miðlar nú af reynslu sinni til annarra og segir bók Hof Wim Hof aðferðin vera ein þeirra bóka sem hafa haft hvað mest áhrif á lífs hans.

Við hittum Andra og byrjum einfaldleg að spyrja hvort hann lesi mikið.

„Já og ég hlusta mikið á hljóðbækur,“

svarar hann glaðlega og bætir við því að hann og dóttir hans séu dugleg að fara saman á söfn Borgarbókasafnsins. Hins vegar sé ekki langt síðan lestraráhuginn kviknaði.

„Það var ekki fyrr en ég var í kringum fertugt, eftir að ég losnaði við andlega og líkamlega verki,“  útskýrir hann.

Hvers konar bækur heilla Andra helst?

„Fræðibækur.“

Af hverju?

„Því ég er í stöðugri þróun,“

segir hann og brosir, en eins og kunnugt er hefur Andri unnið mikið í sjálfum sér og verið ófeiminn við að tjá sig um sjálfsræktina, bæði í viðtölum og á samfélagsmiðlum.

En hvaða bækur hafa haft djúpstæðust áhrif á hann?

Mátturinn í núinu (The Power of the Now) eftir Eckhart Tolle

„Þegar ég las þessa bók fyrst þá byrjuðu alls konar góðir hlutir að gerast; ég fann fyrir aukinni ró og miklum innri frið og þótt það ástand varði kannski ekki lengi þá var samt ákveðnu fræi sáð. Þegar ég las bókina síðan aftur rúmum áratug síðar skildi ég boðskap hennar enn betur og náði að meðtaka hann. Í stuttu máli þá er þetta bók sem hristir upp í undirmeðvitundinni þinni og mögulega alls konar íhaldssömum hugmyndum sem þú kannt að hafa um lífið og tilveruna. Hún kennir þér að vera meira hér og nú.“

What Doesn't Kill Us eftir Scott Carney

„Rannsóknarblaðamaðurinn Scott Carney leiðir þig í sannleikann um Hollendinginn Wim Hof og hans aðferðafræði, en Hof fullyrðir að við getum stjórnað og betrumbætt andlegt og líkamlegt ástand okkar með kuldaþjálfun, hugarfari og öndunaræfingum,“

útskýrir Andri.

Eftir að hafa lesið þessa bók segist hann hafa orðið þess fullvissa að Wim Hof aðferðarfræðin væri „algjörlega málið“.

The Wim Hof Method: Activate Your Full Human Potential eftir Win Hof

„Þessi magnaða bók fjallar um aðferðafræði fyrrnefnds Wim Hof og hvernig þú getur tileinkað þér hana. Þú lærir nánast allt um hana í bókinni. Þar sem ég starfa meðal annars sem Wim Hof kennari þá varð ég bara að lesa hana og hún staðfesti enn frekar trú mína á þessa einföldu aðferðafræði.“

Andardráttur: Forn list endurvakin (Breath: The New Science of a Lost Art) eftir  James Nestor

„Ef þú ert með lungu þá er þessi bók fyrir þig,“ segir Andri. „Hér lærir þú allt um mikilvægi andardráttarins og hvaða áhrif rétt eða röng öndun getur haft á þig. Eftir að hafa lesið þessa bók fékk ég eitt enn verkfæri sem ég nota óspart í minni kennslu sem öndunarþjálfari.“

The Awakened Family eftir Doktor Shefali Tsabary

„Þessi bók fjallar um mikilvægi þess að foreldrar læri að verða hæfir foreldrar áður en „skaðinn er skeður“, ef svo má að orðum komast. Við lestur hennar rann upp fyrir mér að mikið af svokölluðum vandamálum barna okkar er ekki þeim „að kenna“ heldur okkur og vanhæfi okkar til að sinna foreldrahlutverkinu almennilega. Í dag er ég mun meðvitaðri sem foreldri og meðvitaðri um það hvernig ég get skapað mínum börnum æskileg uppeldisskilyrði.“

Materials