Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir segist lesa allt og reynir sérstaklega að fylgjast með íslenskum höfundum.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | Getur jafnast á við góða þerapíu

Bræður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra kenndu henni að lesa því hún var sífellt að trufla þá í leikjum þeirra og þeim fannst mikilvægt að þagga niður í henni. Nú les Katrín helst á hverjum degi og getur ekki ímyndað sér neitt verra en að vera lesefnislaus og svefnlaus í útlöndum.

Spurð hvers konar bókmenntir heilli hana helst segir Katrín glæpasögur vera sérsviðið.

„En ég les allt,“ tekur hún fram, „og reyni sérstaklega að fylgjast með íslenskum höfundum sem ég get ekki gert upp á milli.“

Katrín bætir við að henni finnst sérlega gott fyrir sálina að lesa ljóð.

„Í einu ljóði getur falist stór hugsun,“ útskýrir hún, „og þegar skáldið nær til mín getur eitt ljóð jafnast á við samtalsmeðferð!“

Ertu mikill lestrarhestur?

„Ég hef alltaf lesið mikið og les helst á hverjum degi,“ svarar hún. „Það er ekkert verra en að vera lesefnislaus og svefnlaus í útlöndum.“

Hvenær kviknaði lestraráhuginn?

„Ég lærði að lesa fimm ára. Bræður mínir kenndu mér að lesa því að ég var sífellt að ónáða þá í leikjum þeirra og þeim fannst mikilvægt að þagga niður í mér.“

Af öllum þeim ógrynni bóka sem Katrín hefur lesið í gegnum tíðina, hverjar skyldu hafa haft mest áhrif á hana?

Góði dátinn Svejk Jaroslav Hašek

„Hana las ég sem unglingur og margoft síðan,“ upplýsir Katrín. „Enn í dag vitna ég í hana enda margar ógleymanlegar senur sem einkennast af hryllilegri kaldhæðni sem varpar einstöku ljósi á hörmungar og fánýti stríðsrekstrar, samanber setninguna „Faðir hans var myrtur, hann hlýtur að vera labbakútur líka“.“

Austurlandahraðlestin eftir Agöthu Christie

„Þessa bók las ég sem barn að aldri og féll um leið algjörlega fyrir glæpasögum. Sú ást hefur enst allt lífið og enn í dag dreymir mig um lestrarferð um Evrópu. Auðvitað er fléttan í þessari bók einstök og eins ályktunarhæfni Hercule Poirot sem leysir málið með rökvísi sinni. Líklega var það þessi bók sem beindi mér að lokum inn í glæpasögurannsóknir sem hafa auðvitað sett svip á líf mitt.“

Útlendingurinn eftir Albert Camus

„Í nótt dó mamma er fyrsta setningin. Ég las hana á frönsku fyrst og varð hugfangin, tilvistarstefnan höfðaði sterkt til mín á þessum tíma, vangavelturnar um tilgangsleysi hinnar jarðnesku tilvistar og hinn fjarlægi stíll sem einkennir Camus. Þetta er önnur bók sem ég hef lesið margoft, bæði á íslensku og frönsku, og upplifað þessa sterku tilfinningu í hvert einasta sinn, einmanaleikann og tilgangsleysið.“

Salka Valka eftir Halldór Laxness

„Ekki er umflúið að nefna Sölku Völku, bók sem ég elskaði við fyrsta lestur því að hún sagði mér svo mikinn sannleika um íslenska þorpið, baráttu öreiganna og valdastéttina í samfélaginu – en ekki síður um veruleika og baráttu íslenskra kvenna. Ég las hana fyrst í Menntaskólanum við Sund – og hún var eins og vekjandi snoppungur.“

Jón Oddur og Jón Bjarni eftir Guðrúnu Helgadóttur

„Ekki er hægt að sleppa þeim Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Þegar ég las þessar bækur fannst mér að þetta væri um mína eigin fjölskyldu en við vorum einmitt fjögur systkini, elsta systirin unglingaveik eins og Anna Jóna, tvíburar í miðjunni og lítil systir eins og ég. Þessar bækur eru marglaga, fyndnar og skemmtilegar en ekki síður mynd af veruleika sem ég þekkti og fjölluðu um alls kyns samfélagsleg álitamál án þess að predika yfir lesandanum.“

Materials