Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
Ragnhildur Steinunn hefur gaman af ljóðabókum og ævisögum.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Ég hafði aldrei lesið neitt sem var jafn opinskátt“

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir féll fyrir ljóðum þegar hún var aðeins níu ára og hefur æ síðan leitað í ljóðabækur. „Ljóð geta verið svo dularfull,“ segir hún í spjalli við okkur og greinir um leið frá því að bókmenntaáhuginn hafi leitt hana út á ýmsar áhugaverðar brautir í lífinu.

Hjónin Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fjölmiðlakona og Haukur Ingi Guðnason sálfræðingur leggja mikið upp úr því að hafa bækur aðgengilegar fyrir börnin sín fjögur. Fjölskyldan gerir sér reglulega ferð á bókasafnið og svo hefur heimilisfaðirinn safnað bókum lengi þannig að fjölskyldan hefur nánast komið sér upp eigin bókasafni á heimilinu. Spurð hvað fjölskyldumeðlimirnir lesi sér helst til dægrastyttingar svarar Ragnhildur Steinunn að það sé í raun bara allt mögulegt; skáldsögur, fræðibækur, ævisögur og fleira.

„Ætli mér finnist sjálfri ekki mest gaman að lesa sjálfsævisögur og ljóðabækur,“ segir hún aðspurð en bætir við að síðustu ár hafi frítíminn verið af skornum skammti og því hafi hún leitað í auknum mæli í hljóðbækur.

Hvenær kviknaði lestraráhuginn?

Hún hugsar sig um.

„Ætli það hafi ekki gerst í fjórða bekk þegar ég byrjaði að lesa ljóð,“ svarar hún síðan og útskýrir að krakkarnir í bekknum hafi verið látnir lesa bókina Ljóðspor. Sjálf hafi hún lesið hana spjaldanna á milli og fundist bókin æðisleg.

„Ljóð geta verið svo dularfull,“ segir hún og getur þess að bókmenntaáhuginn hafi seinna leitt hana út á ýmsar skemmtilegar brautir þegar hún var krakki, meðal annars orðið til þess að hún ákvað að sækja um hlutverk í kvikmynd. „Já, ég sótti um hlutverk í Skýjahöllinni sem var kvikmynd byggð á bókinni Emil og Skundi sem ég hafði lesið nokkrum árum áður,“ segir hún og brosir við tilhugsunina.

Spurð hvort hún lesi fyrir börnin sín eitthvað af bókunum sem hún hélt sjálf upp á sem krakki kinkar Ragnhildur Steinunn kolli og segist gera það og þá í bland við nýtt efni. Gömlu góðu bækurnar eins og Lína Langsokkur, Emil í Kattholti, Selurinn Snorri og fleiri verði þá gjarnan fyrir valinu.

„Krökkunum þykja þær voðalega skemmtilegar,“ segir hún og brosir. „Enda klassískar bækur sem standast tímans tönn.“

Og hvernig er að endurnýja kynnin við bækur sem henni þótti vænt um?

„Það er alltaf gaman að lesa þær aftur. Sérstaklega fyrir börnin sín.“

Spurð hvaða bækur hafi haft einna mest áhrif á hana um dagana nefnir Ragnhildur Steinunn þessar þrjár: 

Dýragarðsbörnin eftir Christiane F.

„Saga hinnar þrettán ára gömlu Christiane F. sem sprautaði sig með heróíni og seldi sig fyrir dóp á götum Vestur-Berlínar er ein af þeim bókum sem kemur strax upp í hugann þegar ég hugsa til bóka sem breytt hafa lífi mínu,“ segir hún. „Ég las Dýragarðsbörnin þegar ég var um fjórtán ára og á þeim tíma hafði ég aldrei lesið neitt sem var jafn opinskátt og átakanlegt.“

Educated  / Menntuð eftir Töru Westover

Næsta bók sem Ragnhildur Steinunn telur upp er Menntuð. „Bók sem lýsir tilveru sem er svo fjarlæg því sem við þekkjum. Foreldrar Töru Westover ala börnin sín sjö upp í ofsafenginni mormónatrú og þau lifa lífi sínu eins og heimsendir sé handan hornsins. Börnin fá ekki að ganga í skóla og eru í engum samskiptum við umheiminn. Þau fá ekki einu sinni að leita læknis þegar þau slasast illa. Þetta er saga um ást en líka hatur. Lesturinn er átakanlegur og sýnir okkur hvaða áhrif það getur haft að taka menntun - sem telst til grundvallarmannréttinda nútímasamfélags - frá fólki. Tara heldur í vonina og menntar sig sjálf. Mögnuð saga sem hélt mér allan tímann.“  

Leynigarðurinn eftir Frances Lizu Hodgson Burnett

Þriðja og síðasta sagan er sígilda bókmenntaverkið Leynigarðurinn sem Ragnhildur Steinunn heldur mikið upp á. „Bókin segir frá lítilli munaðarlausri stúlku sem er send til frænda síns á drungalegt sveitasetur. Þegar hún uppgötvar leynigarð sem hefur verið lokaður um árabil tekur hún sig til og reynir að lífga garðinn við á nýjan leik ásamt tveimur drengjum. Ég las þessa bók þegar ég var ellefu ára gömul og fannst hún mjög töfrandi.  Með framvindu sögunnar þroskast aðalpersónan og verður betri manneskja.“

Materials