Vinningshafi Jóladagatalsins 2022

Fimmtán umsóknir bárust í samkeppni um Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar 2022

Jólaævintýri Kötlu og Leós varð fyrir valinu, en Hrafnhildur Emma Björnsdóttir (Hremma) skrifar bæði söguna og teiknar myndirnar. Sagan vakti sérstakan áhuga dómnefndar fyrir frumleika og áhugaverða persónusköpun. Persónurnar eru fjölbreyttar og lifandi og hugað er að sýnileika hinsegin fólks og einstaklinga af ólíkum uppruna án þess að gera þessi málefni að sérstöku umfjöllunarefni í frásögninni. Sögufléttan er vel hugsuð, æsispennandi og kemur sannarlega á óvart. Jólaævintýri Kötlu og Leós er nútímaleg og skemmtileg saga eftir ungan höfund sem ætti að skemmta bæði börnum og fullorðnum í aðdraganda jólanna.

Jóladagatalið verður aðgengilegt á vefsíðu og Facebook síðu Borgarbókasafnsins og á vef og Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar. Sagan er einnig lesin inn í hlaðvörp Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar.

Við óskum Hremmu innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með sögunni í desember!