Úthlutun úr Bókasafnasjóði 2021
Nú á dögunum var styrkjum úr Bókasafnasjóði úthlutað til fjölbreyttra verkefna og rannsókna sem tengjast bókasöfnum með einum eða öðrum hætti. Verkefnin sem hlutu styrk tengjast m.a. hljóðbókum, stafrænum endurgerðum, skapandi samstarfi, táknmálsbókmenntum, upplýsingalæsi, samfélagsrými, hönnun, valdeflingu kvenna, hugmyndum um að tilheyra svo dæmi séu tekin.
Það er ánægjulegt að segja frá því að Borgarbókasafnið hlaut þrjá styrki fyrir eftirfarandi verkefni sem eru þegar starfrækt, í þróun og sköpunarferli:
Gerðuberg kallar
Kallað er eftir skapandi einstaklingum til að vinna að eigin verkefni á bókasafninu sem tengist hugmyndum um að tilheyra og öruggum rýmum. Verkefnið er tilraun í þróun bókasafnsins sem samfélagsrými og þátttökugátt.
Fyrsti samstarfsaðili í verkefninu Gerðuberg kallar er Lukas Bury sem vann að listrænu rannsóknarverkefni sínu They have no pictures on the walls í Gerðubergi. Þetta skapandi samstarf hófst í október 2021 en þar er sjónum beint að samfélagi pólskra innflytjenda á Íslandi.
Stofan – A Public Living Room
Hvernig tökumst við sem samfélag á við breytta tíma? Upplýsingaóreiða og ófyrirsjáanleiki einkenna hversdaginn. Bókasafnið getur skapað samastað sem byggir á trausti, þar sem fólki líður vel og finnur að það tilheyrir einhverju stærra.
Sjá nánari upplýsingar um Stofuna hér.
VV-sögur – skapandi sögumenning Döff á bókasafninu
Táknmálsbókmenntir eru samdar á sjónrænu tungumáli og þær eru einungis til þegar þær eru fluttar. Verkefnið skapar táknmálsbókmenntum rými á bókasafninu og setur VV-sögur í samhengi við íslenskt menningarsamfélag.
Alls voru 20 milljónir til úthlutunar sem skiptust niður á ellefu verkefni sem valin voru úr umsóknum. Á vefsíðu Rannís gefur að líta nánar hvaða verkefni og stofnanir hlutu styrki í ár.