lukas bury

They have no pictures on the walls | Lukas Bury

Bókasafnið hóf skapandi samstarf við Lukas Bury í október 2021. Hann er fyrsti samstarfsaðili okkar í verkefninu Gerðuberg kallar. Lukas vann að  rannsóknarverkefni sínu They have no pictures on the walls í Gerðubergi.

Lukas Bury (f. 1991 í Bonn, Þýskalandi) er myndlistarmaður sem býr og starfar í Reykjavík og hefur pólskan og þýskan bakgrunn. Sögulegur skilningur og áhrifamáttur mynda og tákna á narratívur skapa stóran sess í verkum hans. Hér er viðtal við Lukas um hugmyndir hans um að tilheyra og um örugg rými.

They have no pictues on the walls er listrænt rannsóknarverkefni sem beinir sjónum að samfélagi pólskra innflytjenda á Íslandi. Titill verkefnisins vísar í óformlegt spjall sem listamaðurinn átti við íslenska kunningjakonu sína, sem hafði orð á því að það hefði komið henni á óvart að sjá engar myndir á veggjum heimila pólskra innflytjenda sem sum hver hefðu búið á Íslandi í fleiri ár. Hvaða merkingu hefur það að hafa engar myndir á veggjunum? Segir það eitthvað um ástæður þess að einhver flytji í annað land? Hvar á maður heima ef maður er tímabundið á milli tveggja staða? Með þessar spurningar í huga þróaði Lukas Bury listrænt rannsóknarverkefni ásamt Weroniku Balcerak. Saman rannsökuðu þau, unnu með og skrásettu efni sem snýr að samfélagi pólskra innflytjenda á Íslandi og því hvaða klisjur um þetta samfélag lifa meðal Íslendinga.

Lukas Bury sinnti rannsóknarverkefninu á Borgarbókasafninu í Gerðubergi og setti niðurstöðurnar í nýtt samhengi sem þátttakandi í verkefninu Gerðuberg kallar. Starfsfólk bókasafnsins kynntist listrænni aðferðarfræði teymisins og hvernig hægt er að vinna gegn fyrirframgefnum hugmyndum um útlendinga sem einsleita heild og fara á mis við manneskjur og einstaka sögu hvers og eins. Gerðuberg kallar er tilraunaverkefni þar sem listamanni er boðið að vinna að eigin verkefni sem tengist hugmyndum um að tilheyra og öruggum rýmum.

Í RÝMD fer fram sýning í desember 2021 þar sem Lukas sýnir röð málverka sem vísa í heimili pólskra innflytjenda á Íslandi. Sýningin veitir einstaka innsýn í persónulegt líf innflytjenda og sýnir íslenskt samfélag frá óvæntu sjónarhorni. Listræn stjórn sýningarinn er í höndum Claire Paugam og á sýningunni er Weronoka Balcerak með sérstakt framlag. Hér er tengill á sýninguna á Facebook.

Rit með rannsóknarniðurstöðum verður gefið út í byrjun árs 2022. Efni rannsóknarinnar verður kynnt á útgáfuhófi á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Verkið inniheldur hugleiðingar um samskipti milli Pólverja og Íslendinga. Hvar eiga þessi samskipti stað og hvers konar sambönd geta þróast út frá þeim? Það er margt sem bendir til þess að eðli samskipta leyfi fyrst og fremst samband sem einkennast af viðskiptum, þar sem annar er þjónustuaðili og hinn kúnni í umhverfi starfsstaða. Utan vinnuumhverfis, þá eigum við oftast í samskiptum við fólk af sama þjóðerni. Slíkt getur leitt til samfélags sem er klofið og gerir fólki erfitt fyrir að mynda tengsl þvert á samfélagshópa.

Frekari upplýsingar:
Dögg Sigmarsdóttir 
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 12:35