Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna

Tilkynnt var um tilnefningar til Fjöruverðlaunanna á Borgarbókasafninu Grófinni þann 3. desember. Tilnefnt var, samkvæmt venju, í þremur flokkum:


Fagurbókmenntir

  • Rifsberjadalurinn eftir Ásdísi Óladóttur
  • Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmundsdóttur
  • Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur

 

Barna- og unglingabækur

  • Sigrún á safninu eftur Sigrúnu Eldjárn
  • Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Tjörnin eftir Rán Flygenring

 

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur
  • Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
  • Duna. Saga kvikmyndagerðakonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur

 

 

Aðeins úr sögu verðlaunanna (tekið af vefsíðu Fjöruverðlaunanna):

Hugmyndin að Fjöruverðlaununum kviknaði árið 2006 innan grasrótarhóps kvenna í Rithöfundasambandi Íslands og Hagþenki. Meðal ástæðna þess að hópurinn taldi sérstök kvennaverðlaun nauðsynleg var ójöfn kynjaskipting handhafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna en á tímabilinu 1989–2011 fengu 36 karlar og 11 konur verðlaun. Horft var til hinna bresku Women's Prize for Fiction sem veitt voru í fyrsta sinn árið 1996, en stofnað var til þeirra vegna óánægju með hlut kvenna við úthlutun bókmenntaverðlauna og hefur starf þeirra verið farsælt og vakið athygli á fjölmörgum kvenrithöfundum sem skrifa á ensku.

Árið 2020 voru Fjöruverðlaunin útvíkkuð, svo að til verðlaunanna kæmu til greina bækur eftir konur (sís og trans), trans, kynsegin og intersex fólk. Skilningur samfélagsins á kyni heldur áfram að þróast og árið 2023 var Fjöruverðlaununum aftur breytt, að til verðlaunanna kæmu til greina bækur eftir konur og kvára.

Er þessi útvíkkun í anda grasrótarinnar sem upphaflega stofnaði til verðlaunanna, að vekja athygli á verkum rithöfunda sem verða útundan í karllægri uppbyggingu bókmenntaheimsins. Líkt og konur, hafa kvár þurft að finna á eigin skinni fordóma feðraveldisins og verið njörvað niður í fjötra kynjakerfisins.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 3. desember, 2024 17:55
Materials