Friðarstarf bókasafns | Opið samtal

Bókasafnið er umhverfi sem fólk þekkir, það er fasti í tilverunni og á sama tíma er það síbreytilegt. Bókasafnið vinnur að friði með því að stuðla að tengslum milli fólks, skapa því rými sem á er þörf og auðvelda aðgengi að þekkingu og upplýsingum.

Breyting hefur orðið á samsetningu þess hóps sem nú sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi og búist er við að enn fjölgi í þeim hópi á næstunni. Hvað getur bókasafnið gert? Við búum yfir þeirri hæfni að geta gert breytingar á rýminu og notkun þess sem svarar kalli hvers tíma. Eins og rætt var um í opnu samtali við Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum, þá eru engar fyrirframgefnar lausnir og þessi málaflokkur er í stöðugri þróun. Hópur fólks sem sækir um alþjóðlega vernd er fjölbreyttur og hvert og eitt hefur tilkall til sömu grunnréttinda. Fyrsta skrefið er alltaf að ræða við þá einstaklinga sem munu nýta rýmið. Friðarstarfið felur í sér að leitast við að mæta þörfum sem til staðar eru, í samstarfi við aðrar stofnanir.

Við getum skapað samastað þar sem fólk sinnir sínum eigin verkefnum, til dæmis fjarvinnu, fjarkennslu eða hópavinnu, þegar einstaklingar eru fjarri heimaslóðum. Bókasafnið getur verið staður í okkar samfélagi þar sem ólíkir einstaklingar mætast til að deila því sem þeir hafa og einnig athvarf til að ná áttum í návist annarra. Bókasafnið er hlutlaust rými þar sem við getum hvert og eitt fundið okkur mismunandi hlutverk og staðFriðarstarf bókasafns tekur á sig margar myndir, sem við sjáum til dæmis í útstillingum bóka sem varða samfélagsþróun og með opnum samtölum og fræðslu.

Við þökkum kærlega fyrir samtalið og minnum á að við erum opin fyrir nýjum hugmyndum um nýtingu bóksafnsins til að stuðla að lýðræði og virðingu fyrir réttindum fólks. Hafðu samband!

Opið samtal, hvað er það? Umræðuvettvangur um málefni tengd réttindum, aðgengi og þátttöku í samfélaginu. Dagskráin í heild.

Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 14:47