Höfðingi í Heiðmörk
Höfðingi í Heiðmörk

Borgarbókasafnið gróðursetti tré í tilefni af 50 ára afmæli bókabílsins Höfðingja

Í fyrradag, laugardaginn 25. maí, plantaði starfsfólk Borgarbókasafnsins og aðrir góðvinir þess 1606 tré til heiðurs bókabílsins Höfðingja sem fagnar 50 ára afmæli í ár. Borgarbókasafnið hyggst leggja sitt af mörkunum í skógrækt og umhverfisvernd og því ákváðum við að halda upp á stórafmælið með því að setja okkur háleitt markmið og kolefnisjafna síðustu 50 ár bókabílsins á götum Reykjavíkurborgar.

Hugmyndin kviknaði þegar við sáum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar kolefnisjafna flugferðirnar sínar og fengum við mikla hvatningu frá þeim um að gera slíkt hið sama. Þar sem Höfðingi fagnar 50 ára afmæli í ár ákváðum við að reikna út hversu mörgum trjám þyrfti að planta til að jafna út útblásturinn á þessum fimm áratugum. Kemur í ljós að sá fjöldi hljóðar upp á 5.000 tré! Þá fengum stuðning frá Skógrækt Reykjavíkur sem lét okkur fá land í Heiðmörk til að hugsa um og gaf okkur bæði græðlinga og frábæra leiðsögn í gróðursetningu frá Gústafi Jarli Viðarssyni, skógfræðingi. Nú er Borgarbókasafnið landnemi í Heiðmörk og hefur fengið tvo hektara og verður það á okkar ábyrgð að hugsa um þetta land og gera eitthvað fallegt við það. Við erum mjög þakklát fyrir það! 

Þegar við höfum lokið við að gróðursetja 5.000 tré munum við halda áfram að hirða um landið. Fólk talar um að kolefnisjafna með því að planta trjám, en stundum gleymist að hugsa út í þann tíma sem það tekur trén að jafna út útblásturinn. Hér reiknum við með að það taki trén 30-50 ár að komast að núllinu. Fyrstu þrjú árin er mikilvægast að sjá til þess að trén hafi rými til að vaxa og dafna og svo þarf að planta öðrum trjám í stað þeirra sem ekki ná að festa rætur, en að jafnaði eru það um 10-30%. Það er einnig mikill kostur að leggja sitt af mörkum til að gera svæðið skemmtilegt fyrir fólk, leggja göngustíga og setja upp aðstöðu til útivistar.

En ljóst er að við eigum enn stórt verk framundan því við eigum enn eftir að gróðursetja 3.394 tré til að kolefnisjafna keyrslu bókabílsins. Þetta er auðvitað að einhverju leyti táknrænn viðburður sem sýnir vilja Borgarbókasafnsins til þess að láta gott af sér leiða í loftslagsmálum. Auðvitað mætti færa rök fyrir því bókabíllinn hafi sparað margar ferðir bókasafnsnotenda á einkabílum með því að koma með bækurnar til þeirra. En við vildum kolefnisjafna allan útblásturinn til þess að sýna samfélaginu okkar stuðning, og auðvitað líka vegna þess að það er skemmtilegt að njóta útivistar í góðum félagsskap! Unga fólkið hefur með loftslagsverkföllum beðið um að fá að taka við jörðinni í betra ástandi en því sem spáð er fyrir um og Borgarbókabókasafnið ætlar að leggja sitt á vogarskálarnar til að verða við þeirri beiðni. Við hvetjum aðrar stofnanir og önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama! 

Eftir Borgarbókasafn (óstaðfest)
Mánudagur 27. maí 2019
Flokkur