Álfrún Gunnlaugsdóttir

Blessuð sé minning Álfrúnar Gunnlaugsdóttur

Rithöfundurinn Álfrún Gunnlaugsdóttir (1938-2021) er látin. Álfrún nam bókmenntir á Spáni og í Sviss og var fyrsta konan sem var ráðin í fasta stöðu hjá heimspekideild Háskóla Íslands, þar sem hún starfaði frá árinu 1971 til 2006, fyrst sem lektor, dósent og þá prófessor. Álfrún sendi  m.a. frá sér átta skáldverk og þýðingu. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun DV fyrir skáldsöguna Þel. Skáldsögurnar Hringsól, Hvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið voru allar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, sem og sú síðastnefnda tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og einnig skáldsagan Rán. Verk hennar hafa einnig verið þýdd. Álfrún var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og var jafnframt heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta á háskólastigi.

Álfrún var mikilvægur höfundur í íslensku bókmenntalandslagi, viskubrunnur, dýrmætur kennari og vinur að sögn samferðarfólks. Við heiðrum minningu Álfrúnar og birtum hér bæði bókalista yfir skáldverk hennar og ummæli frá nokkrum vinum og kollegum, falleg saknaðarorð af samfélagsmiðlum:

Vinkona mín og kollega, Álfrún Gunnlaugsdóttir, er látin. Hún var merkur rithöfundur og fyrsti kennarinn í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Fyrst og fremst var hún afbragðs góður félagi og mikið var gaman að ræða við hana á góðum stundum. Blessuð sé minning hennar. – Gauti Kristmannsson

Rithöfundurinn Álfrún Gunnlaugsdóttir kvaddi þennan heim í fyrrinótt - hún kenndi mér um vináttu, hún elskaði bækur og að lesa - hún vissi næstum því allt - hún kunni líka að njóta lífsins. – Kristín Ómarsdóttir

Fáir kennarar hafa haft meiri áhrif á mig og ég mun sakna hennar sárt. Hún gaf aldrei eftir á kröfum sínum hvorki til sjálfrar sín eða annarra og var mikil fyrirmynd.  – Dagný Kristjánsdóttir

Þar kveður góður kollegi og lærimeistari. Það er dýrmætt að fá að kynnast einstaklingum á lífsleiðinni sem móta mann fyrir lífstíð, en þannig voru kynnin af Álfrúnu fyrir mig allt frá því ég gekk inn í fyrsta tímann í almennu bókmenntafræðinni hjá henni. Það var einhver fágæt blanda af fádæma víðsýni og fastheldni við ákveðin grundvallarprinsipp í Álfrúnu sem gerði hana að svo mögnuðum einstaklingi. Blessuð sé minning hennar.  - Benedikt Hjartarson

 

Á Borgarbókasafninu má finna bækur eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, sem sjá má hér fyrir neðan, taka frá, lána og lesa.

Takk fyrir skáldskapinn!

Flokkur
Merki
UppfærtÞriðjudagur, 21. september, 2021 14:23
Materials