Skrifstofan - Ritlistarnámskeið
Skrifstofan - Ritlistarnámskeið

Skrifstofan: Að skrifa lengri texta


Langar þig að að skrifa lengri texta?

Gengurðu jafnvel með skáldsögu i maganum? Á námskeiðinu gerum við stílæfingar og liðkum skrifvöðvana en könnum um leið að hverju er gott að huga þegar við tökumst á við lengri textasmíði en þá sem við höfum áður glímt við í smásögum, örsögum eða ljóðum.

Hvar byrjum við? Hvar fáum við hugmyndir og hvernig vitum við hvort hugmyndin er nógu stór fyrir lengri sögu? Við vinnum með kveikjur og reynum fyrir okkur í persónusköpun, átökum, skoðum hefðbundna byggingu skáldsagna, veltum fyrir okkur söguþræði og fléttu, sögusviði og öðrum byggingarsteinum lengri texta. Nemendur skila kennara efni eftir hvern tíma og fá endurgjöf.

Sem stendur er námskeiðið fullbókað.

Kennt er í tvo tíma í senn, fimm miðvikudaga í október og nóvember. Athugið að ekki er kennt 20. og 27. október. Nemendur vinna áfram með kveikjur eftir fyrsta tíma:

13. október: Að leggja í hann - hvar leitum við fanga? Við skoðum kveikjur út frá sögulegum atburðum, fréttum og fleiri leiðum.

3. nóvember: Persónuleikarnir. Karakterdrifin frásögn og persónusköpun  - hvernig sköpum við trúverðugar, heillandi persónur?

10. nóvember: Byggingarvinnan. Bygging skáldsögunnar og lengri frásagna. Við kynnum okkur nokkrar leiðir til þess að byggja lengri texta.

17. nóvember: Allir á svið! Að sviðsetja sögu, mála sögusvið og skrifa samtöl.

24. nóvember:  Flækjustigið. Hvað er flétta? Hvað ef ég kann ekki að flétta? Upplestur í lokatíma.

Kennt er frá 16.30 -18.30 á miðvikudögum.

Það opnuðust algerlega nýjar dyr að leyndardómum og “trixum” sem hafa þarf í huga við smásagnagerð. 
Emil B. Karlsson

Að kynnast öðrum, fá hvatningu og hittast á óformlegan hátt var mjög gott. Þannig deildum við verkum sem annars lágu rykfallin ofan í skúffu. 
Kristjana Unnur Valdimarsdóttir

Nú skrifa ég reglulega (bók á leiðinni) og nýt hvers tíma þar sem ég læri eitthvað nýtt.
Sigurður Haraldsson

Ég er afar stolt að hafa komið út litlu hefti sem er tileinkað móður minni. Ég hefði aldrei komið því í framkvæmd nema að hafa verið í ritsmiðjunni. 
Sigríður Jóhannsdóttir

Skrifstofan er ritsmíðaverkstæði á Borgarbókasafninu í Kringlunni og samfélag skrifandi fólks. Þar getur fólk komið saman og unnið að ritstörfum sínum; einbeitt sér að skrifum í hvetjandi umhverfi; fundið ritfélaga til þess að lesa yfir texta eða skiptast á skoðunum við; sótt sér innblástur í bækur og annað efni eða fundið samfélag annarra höfunda.

Leiðbeinandi:
Sunna Dís Másdóttir | sunnadis@gmail.com

Flokkur
UppfærtMánudagur, 25. október, 2021 13:41