Bókmenntavefurinn | Tilraunin um Tindra

„Jeg heiti Tindri vegna þess að það ljómaði svo skært í augum mér nýbornum. Ég tindra.“

Millibilsmaðurinn, bls. 195

Á Bókmenntavefnum er fjallað um bókina Millibilsmaður eftir Hermann Stefánsson og hún sögð áhugaverð bókmenntategund þar sem margt í sögunni er byggt á heimildum og líkindi við veruleikann ekki tilviljun þótt textinn sé skáldskapur.  Sagan segir frá Tindra miðli og fundum í Tilraunafélaginu og er þar vísað í andatrúarmenn í Reykjavík fyrir rúmum hundrað árum og persónan Tindri vísar til Indriða Indriðasonar, sem var þekktur miðill í upphafi 20. aldar. Höfundur tileinkar bókina minningu langafa síns og langömmu - og koma þau við sögu í bókinni þó með breyttum nöfnum ásamt fleira fólki á þessum tíma, bæði spíritistar og skeptíkerar. Höfundur leikur sér fimlega að mörkum sannleika og skáldskapar og er til að mynda fjallað um tvo apa og mögulegt trúarlíf þeirra. Ritdómari segir verkið bráðfyndið „[...] þótt lífsins harmur sé líka til staðar - og fíngerður sláttur hans alls staðar í bakgrunni.“ 

Lesið umfjöllunina á Bókmenntavefnum en skáldsagan er sögð afar óvenjuleg, skringileg og sérlega áhugaverð.

Tíðarandanum miðlar höfundurinn af stakri fagmennsku, það er sindrandi fjör og gáski í textanum og af frásögninni stafar ástúð í garð umfjöllunarefnisins.

Þórunn Hrefna, Bókmenntavefurinn

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13