Bókmenntavefurinn | Fylgist með vandaðri bókmenntaumfjöllun

Bókmenntavefurinn minnir á sig nú þegar hausta tekur. Vefurinn er starfræktur allan ársins hring og þar birtast reglulegir ritdómar og rýni í höfundarverk rithöfunda og skálda. Það gæti jú farið svo að við fáum indjánasumar í stað hausts, slík sumur draga birtu, hlýju og aðrar sumarlanganir á langinn, lengja kannski lífið og fegurð daga til muna. Hvað sem því líður þá er alveg víst að von er á nýjum bókum í okkar ylhýra og funheita bókaflóði. Bókmenntavefurinn hitar því enn frekar upp í kolum með vönduðum umfjöllunum um bækur. Um er að ræða jafnt þýðingar sem frumsamdar bókmenntir fyrir börn og fullorðna;  ljóð, skáldsögur, smásagnasöfn, fræðibækur, myndasögur, ævisögur, sannsögur, leikrit og sýningar og hvað eina sem leshugurinn þarfnast.

 

Nýjustu umfjallanir á Bókmenntavefnum nú í lok sumars eru fjölbreytt verk; þýdd barna- og ungmennabók sem jafnframt er myndasaga, textasafn sem tengir saman fræði og skáldskap í ætt við sögur og húslestra úr baðstofunni, yfirlit yfir höfundarverk, skrif um leiksýningu og tvær ljóðabækur:

Húslestur eftir Magnús Sigurðsson. 
Greinin á Bókmenntavefnum ber heitið Leiðsögumaðurinn en þar rýnir Þorgeir Tryggvason í þessa forvitnilegu bók skáldsins og þýðandans sem sagður er snjall og einstakur höfundur, boðberi ferskrar hugsunar og opineygrar leitar að verðmætum í textasafni heimsins. En verkið er margslungið textasafn sem kemur víða við m.a. í heimi ljóða og listamanna.

 

Góða ferð inn í gömul sár og önnur verk eftir Evu Rún Snorradóttur.
Vera Knútsdóttir fjallar vítt og breitt um höfundarverk ljóð- og leikskáldsins Evu Rúnar í greininni Eðlileikinn, nærumhverfið og normið.

 

Sálmabók hommanna eftir Ragnar H. Blöndal.
Heilagur hinseginleiki nefnist grein Þorvaldar S. Helgasonar um þessa fimmtu ljóðabók Ragnars, sem hann segir að sé fyrst og fremst dásamlega hinsegin.

 

Tunglóður eftir Karl Ólaf Hallbjörnsson.
Þorvaldur S. Helgason fjallar um fyrstu ljóðabók höfundar og er verkið sagt einkar yfirvegað og lágstemmt sem ferðast víða í skírskotunum sínum, en ritdómurinn ber heitið: Óður til tunglsins og tregans.

 

Allt sem rennur eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur.
Hér er rýni í þessa átakanlegu og meitluðu ljóðsögu en bókin hlaut ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna árið 2023. Grein Þorvaldar kallast: Hin hversdagslega grimmd.

 

Hjartastopp (e. Heartstopper) eftir Alice Oseman í þýðingu Erlu Elíasdóttur Völudóttur.
Þorvaldur S. Helgason rýnir í myndasöguseríu sem kom fyrst út í Bretlandi árið 2019 og hefur notið mikilla vinsælda. Aðalsögupersónan er Charlie Spring, 14 ára tilfinningaríkur og listrænn strákur sem verður ástfanginn af Nick Nelson. Þorvaldur segir þessa ungmennabók vera vandaða sögu fyrir ungmenni af öllum kynjum og kynhneigðum.

 

Fylgist með bókmenntaumfjöllun á Bókmenntavefnum í vetur!

Bókmenntavefurinn er samstarf Bókmenntaborgarinnar og Borgarbókasafnsins og Úlfhildur Dagsdóttir ritstýrir.