Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021

Við óskum verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 hjartanlega til hamingju með verðskuldaðan heiður, þeim Sigrúnu Helgadóttur, Hallgrími Helgasyni og Þórunni Rakel Gylfadóttur.

Forseti Íslands tilkynnti vinningshafa við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Hann talaði um mikilvægi viðkvæmninnar þegar skáldskapur er annars vegar og höfundarnir ræddu meðal annars af þakklæti um bækur, drauma, hvað þarf til að lifa á jörðinni, um chili, skáldskap og það mikilvæga sem bylur í heila.

 

Flokkur fagurbókmennta:

Hallgrímur Helgason fyrir skáldsögu sína Sextíu kíló af kjaftshöggum.
Útgefandi: JPV.

Hallgrímur sagðist nær orðlaus af þakklæti í ræðu sinni og að skáldskapurinn þyrfti að virka sem heilabylur (mindblowing) líkt og chili fyrir bragðlauka.

Um bókina af vef útgefanda:

Sjálfstætt framhald verðlaunaskáldsögunnar Sextíu kíló af sólskini. Sagan hefst í Segulfirði, árið 1906. Áfram vindur furðuríku ferðalagi Íslendinga út úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur. Lesandinn er hrifinn með í dans á síldarpalli, í ólgandi takti sem dunar í huganum að lestri loknum því enn á ný hefur Hallgrími tekist að kveða dýran óð úr örlögum fátæks fólks við ysta haf.

Hallgrímur Helgason er þúsundþjalasmiður í íslensku menningarlífi og hefur komið við í ýmsum kimum bókmenntanna auk þess að stunda myndlist og samfélagsumræðu. Hallgrímur hefur hlotið ófáar viðurkenningar á ferli sínum sem rithöfundur. Árið 2021 var hann sæmdur Heiðursorðu Frakka fyrir framlag sitt til lista og bókmennta, hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og bæði fengið Íslensku þýðingarverðlaunin og Íslensku hljóðbókaverðlaunin. Þá hefur hann hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin tvisvar áður, fyrir Höfund Íslands 2001 og Sextíu kíló af sólskini 2018 og nú í þriðja sinn fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum, 2021.
 

Flokkur fræðirita og rita almenns eðlis:

Sigrún Helgadóttir fyrir fræðirit sitt Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni, I-II.
Útgefandi: Náttúruminjasafn Íslands.

Í ræðu sinni vísaði Sigrún til orða jarðfræðingsins Sigurðar um samband og mikilvægi  bæði raun- og hugvísinda, á þá leið að án raunvísinda sé ekki hægt að lifa og án hugvísinda sé ekki vert að lifa hér á jörðu.

Um bókina af vef útgefanda:

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar segir af einum fremsta vísindamanni Íslendinga, sem hvert mannsbarn þekkir. Sigurður er nýkominn heim frá námi í jarðfræði þegar stórgos varð í Heklu 1947. Hann rannsakaði það og útskýrði og síðan öll önnur eldgos sem á eftir komu hér á landi svo lengi sem hann lifði. Sigurður hlaut alþjóðlega athygli fyrir vísindastörf sín og ekki síst fyrir að þróa sérstaka fræðigrein, öskulagafræði. Sigurður var einnig vinsælt söngvaskáld og margir texta hans eru enn sungnir, svo sem Vorkvöld í Reykjavík eða Þórsmerkurljóð.

Sigrún Helgadóttir er kennari og líffræðingur, sérhæfð í náttúruvernd og umhverfismennt. Hún hefur samið kennsluefni en einnig bækur um þjóðgarða og íslenska faldbúninginn.
 

Flokkur barna- og ungmennabóka:

Þórunn Rakel Gylfadóttir fyrir bók sína Akam, ég og Annika.
Útgefandi: Angústúra.

Þórunn Rakel skoraði á mennta- og menningarmálaráðherra, í ræðu sinni, að auka bókakost í skólum svo um munar og jafnframt hvatti hún fólk til að elta drauma sína.

Um bókina af vef útgefanda:

Hrafnhildur neyðist til að flytja til Þýskalands með fjölskyldu sinni þegar stjúpfaðir hennar fær þar vinnu. Nýi skólinn er mjög strangur og hún saknar pabba síns og ömmu, en aðallega bestu vinkonu sinnar. Þegar hún kynnist hinum krökkunum í skólanum renna hins vegar á hana tvær grímur. Vissulega er erfitt að vera nýja stelpan í bekknum, mállaus og vinalaus, en það virðist vera til verra hlutskipti. Hrafnhildur þarf á öllu sínu hugrekki að halda þegar hún tekst á við áskoranir sem hana hefði ekki einu sinni grunað að væru til. Hverjum getur hún eiginlega treyst? Af hverju vill Annika endilega vera vinkona hennar – og í hvaða vandræðum er Akam?

Þórunn Rakel Gylfadóttir er fædd í Reykjavík árið 1968 og er uppalin í Hafnarfirði. Hún er með BS-próf í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands og meistarapróf í viðskiptafræði frá sama skóla. Þá hefur Þórunn kennsluréttindi en hún hefur kennt í Hagaskóla og kennir þar nú skapandi skrif. Um þessar mundir er hún einnig í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands. Akam, ég og Annika er fyrsta bók höfundar.

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 27. janúar, 2022 10:17
Materials