Tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur veittar
Glæsilegur hópur tók við tilnefningum í Gerðubergi

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar | Tilnefningar

Tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur voru veittar í Borgarbókasafninu Gerðubergi þann 9. mars síðastliðinn. Fimmtán bækur voru tilnefndar að þessu sinni en verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: Í flokki barna- og ungmennabóka frumsaminna á íslensku, flokki þýddra barna- og unglingabóka og í flokki myndríkra bóka. Athöfnin fór fram í OKinu, nýju rými ætluðu ungmennum.

Við athöfnina flutti Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning sinn fyrir valinu. Verðlaunin sjálf verða svo afhent hefðinni samkvæmt síðasta dag vetrar í Höfða.


Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir fyrir eftirtaldar bækur, sem allar komu út á síðasta ári. 

Bækur frumsamdar á íslensku:

Gunnar Helgason: Draumaþjófurinn. Mál og menning gaf út.

Margrét Tryggvadóttir: Kjarval - Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn gaf út.

Hildur Knútsdóttir: Nornin. JPV gaf út.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar. Björt gaf út.

Snæbjörn Arngrímsson: Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins. Vaka-Helgafell gaf út.

 

Myndlýsingar í barnabókum:

Bergrún Íris Sævarsdóttir: Ró - Fjölskyldubók um frið og ró. Töfraland gaf út.

Blær Guðmundsdóttir: Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsúrumsipp - Systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum! Bókabeitan gaf út.

Jón Páll Halldórsson: Vargöld, 2. bók. Iðunn gaf út.

Lani Yamamoto: Egill spámaður. Angústúra gaf út.

Rán Flygenring: Vigdís - Bókin um fyrsta konuforsetann. Angústúra gaf út.

 

Þýddar barnabækur:

Illugi Jökulsson: Bók um tré eftir Piotr Socha og Wojciench Grajkowski. Sögur útgáfa gaf út.

Jón St. Kristjánsson: Villinorn - Bækurnar Blóð Viridíönu og Hefnd Kímeru eftir Lene Kaaberbøl. Angústúra gaf út.

Silja Aðalsteinsdóttir: Snjósystirin eftir Maja Lunde. Mál og menning gaf út.

Þórarinn Eldjárn: Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson. Mál og menning gaf út.

Þórdís Gísladóttir: Múmínálfarnir - Minningar múmínpabba eftir Tove Jansson. Mál og menning gaf út.


Barnabókaverðlaun Reykjavíkur eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.

Dómnefnd verðlaunanna í ár er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Helgu Birgisdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

 

RÖKSTUÐNINGUR DÓMNEFNDAR


TILNEFNDAR BÆKUR Í FLOKKI FRUMSAMINNA BÓKA:

Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason

Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason fjallar um rottuna Eyrdísi í Hafnarlandi sem brýst undan oki móður sinnar, Frú Skögultannar Foringja. Eyrdís neyðist til að hætta sér inn í hina ógnvekjandi Borg í leit að Halaldi vini sínum sem hefur horfið með dularfullum hætti. Frásagnargleði höfundar skín af hverri blaðsíðu og það reynist lesanda auðvelt að fylgja raunum og sigrum hetjunnar frá Hafnarlandi. Sagan er allt í senn hröð, kraftmikil og myndræn. En Draumaþjófurinn er ekki bara lipur og gáskafull spennusaga heldur einnig þroska- og baráttusaga sem vekur alla lesendur, unga sem aldna, til umhugsunar um réttlæti, jafnræði og frelsi.


Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur

Í Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir varpar Margrét Tryggvadóttir ljósi á manninn og listamanninn Jóhannes S. Kjarval og er bókin prýdd fjölda ljósmynda auk listaverka eftir Kjarval. Margréti tekst feiknavel að leiða lesendur inn í horfinn heim og endurvekja tímana sem Kjarval lifði. Listmálarinn ástsæli lifnar við og vekur undrun og áhuga lesenda, sem fá það ef til vill á tilfinninguna að þeir þekki nú listamanninn í eigin persónu. En bókin er þar að auki glæsilegur gripur á allan hátt, vandað hefur verið til uppsetningar og hugað vel að samspili lita, mynda og texta og fyrir vikið er hver opna um sig lítið listaverk. Frábær bók sem á svo sannarlega erindi við alla og fangar huga bæði yngri og eldri lesenda.


Nornin eftir Hildi Knútsdóttur

Sögusvið Nornarinnar er Ísland 2096 og stóru þemu bókarinnar eru loftslagsbreytingar og flóttamenn. Heimurinn er orðinn ansi háskalegur og hefur breyst heilmikið, einkum hefur náttúran tekið stakkaskiptum, ekki hvað síst vegna umgengni mannanna. Nornin er ákaflega vel skrifuð saga. Hildur eru lunkin að bregða ljósi á persónur með fáum orðum, lýsingar hennar á sögusviðinu eru einfaldar en oft ljóðrænar og henni tekst vel að skapa trúverðugt andrúmsloft og lýsa heimi sem, til allrar lukku, er ekki enn orðinn að veruleika (og þó!). Skilaboðin eru skýr og sett fram í spennandi búningi. En þó svo Nornin eigi sér stað í framtíðinni er hún samtímasaga sem á erindi við okkur öll – saga sem skemmtir og vekur okkur til umhugsunar.


Rannsókn á leyndardómum eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson

Í Rannsókn á leyndardómum eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson stíga sögumaðurinn Milla og Guðjón G. Georgsson vinur hennar ljóslifandi upp af blaðsíðunum og lesandinn sogast inn í leyndardómsfulla atburðarás og heim þar sem ekki er allt sem sýnist. Hvað á sér stað í eyðihúsinu? Af hverju birtist kistill frá látnum manni á tröppum bókasafnsins? Snæbjörn Arngrímsson kann þá list að spinna spennandi söguþráð og skapa jafnframt áhugaverðar og lifandi persónur, eins og sögumanninn Millu sem lifir lengi með lesanda. Knappur en jafnframt ljóðrænn stíll og örar kaflaskiptingar eiga sinn þátt í að kalla fram kyrrlátt og leyndardómsfullt andrúmsloft og búa til einkar eftirminnilega og spennandi sögu.


Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur

Villueyjar er fantavel skrifuð ungmennabók sem fjallar um baráttu góðs og ills og það að trúa – bæði á sjálfan sig og aðra. Lesendur fylgjast með sorgum og sigrum aðalspersónunnar Arildu og hinn fantasíukenndi söguheimur er byggður upp á einkar sannfærandi hátt. Víða er að finna tilvísanir í sögulega atburði okkar heims og staðarnöfn auk þess sem skírskotað er til áskorana og gilda hins vestræna samfélags. Allt þetta stuðlar að því að mynda þétta og góða sögu. Mikil áhersla er lögð á umhverfislýsingar sem þó bitna ekki á persónusköpun en Ragnhildi hefur tekist að skapa sérlega athyglisverða aðalpersónu ásamt því sem aukapersónurnar lifna við á síðum bókarinnar og eru annað og meira en bara staðalímyndir.

 

TILNEFNDAR BÆKUR Í FLOKKI MYNDRÍKRA BÓKA:

Egill spámaður, texti og myndir eftir Lani Yamamoto

Í Agli spámanni segir frá dreng sem finnst ekki gott að tala og líður best að fara í gegnum dagana í föstum skorðum, að finna öryggi í eigin venjum. Nú á tímum greininga hvarflar helst að manni Egill sé á einhverfurófinu, en það væri samt takmarkandi lýsing á bók eins og Agli spámanni því hún er í senn heimspekileg og ljóðræn og leyfir lesandanum að fylla inn í eyðurnar. Heildaruppsetning bókarinnar er ákaflega falleg, texti og myndir eru í mjúkri litapallettu og fá gott rými til að njóta sín í einfaldleika sínum. Bókin skilur eftir sig áleitna tilfinningu fyrir kyrrð og fegurð.


Ró – fjölskyldubók um frið og ró, texti: Eva Rún Þorgeirsdóttir, myndir: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Ró – fjölskyldubók um frið og ró er samsafn af æfingum og hugleiðingum um tilfinningar okkar og viðbrögð og er byggð á margra ára reynslu Evu Rúnar af að kenna börnum jóga, slökun og hugleiðslu. Bókinni er ætlað að minna lesandann á það mikilvægasta í lífinu, að hver dagur er dýrmætt, nýtt ævintýri sem við getum öll lært að fanga með ýmsum leiðum. Til að mynda með því að finna okkar eigin innri ró og það gerir lesandinn sannarlega þegar hann opnar bókina því myndir Bergrúnar Írisar við texta Evu Rúnar eru næmar og hæglátar, fullar af bæði fegurð og ró. Hér sýnir Bergrún Íris á sér enn nýja hlið sem frjór og natinn myndhöfundur og úr verður falleg og eiguleg bók fyrir alla fjölskylduna.


Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsúrumsipp, texti og myndir eftir Blævi Guðmundsdóttur

Í bókinni Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp leikur Blær Guðmundsdóttir, höfundur og teiknari, sér með persónur úr gamalli munnmælasögu og gerir úr henni sína eigin útgáfu. Þetta er stórskemmtileg endurvinnsla á hinu hefðbundna ævintýraformi sem skartar prinsum og prinsessum og notar höfundur ýmis minni úr gömlum sögum saman við það sem við þekkjum úr nútímanum. Teikningarnar eru léttar og leikandi vatnslitamyndir og bera Blæ vitni um góða færni, stíllinn er húmorískur, allt að því léttklikkaður á skemmtilegan hátt sem hæfir sögunni vel og myndirnar stútfullar af litlum, fyndnum smáatriðum sem bæta við söguna.


Vargöld: 2. bók, texti: Þórhallur Arnórsson, myndir: Jón Páll Halldórsson

Vargöld 2 er önnur bókin af þremur eftir Þórhall Arnórsson og Jón Pál Halldórsson þar sem hinn forni goðsagnaarfur er færður í myndasöguform. Sögð er saga bæði manna og goða og óhjákvæmilega mætast heimarnir tveir og afleiðingarnar geta verið ofsalegar. Sagan sjálf, í samspili mynda og texta, er bæði frumleg og heillandi og sýnir hversu glæsileg útkoman getur verið þegar goðsögurnar eru meðhöndlaðar af virðingu og ímyndunaraflið fær að leika lausum hala. Útkoman er ógnvekjandi en um leið heillandi; textinn fremur knappur og fellur mjög vel að hárnákvæmum og táknrænum myndunum.


Vigdís: bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring

Verðandi rithöfundur gerir sér lítið fyrir og bankar upp hjá Vigdísi Finnbogadóttur, eins og ekkert væri sjálfsagðara, með þeim ásetningi að skrifa um hana bók. Bókin er skrifuð út frá sjónarhóli barns sem býr yfir því sjálfsprottna hugrekki sem aðeins börn hafa, að ráðast í það stórvirki að skrifa um fyrsta konuforsetann, þrátt fyrir ungan aldur. Hugmyndin er frábær og ískrandi skemmtilegar teikningar, handskrifuð leturgerð og lifandi uppsetning mynda saman fallega heild og koma lífshlaupi Vigdísar vel til skila á aðgengilegan og hátt sem bæði fullorðnir og börn ná að njóta, jafnframt því sem bókin hefur gott sagnfræðilegt gildi.

 

TILNEFNDAR BÆKUR Í FLOKKI ÞÝDDRA BÓKA:

Bók um tré, texti: Wojciech Grajkowski, myndir: Piotr Socha, í þýðingu Illuga Jökulssonar

Bók um tré er fróðlegur og eigulegur gripur. Í henni er rakin saga trjáa og fjallað um mikilvægt hlutverk þeirra í mannkynssögunni og áhrif þeirra á þjóðlíf, náttúru og menningu. Í bókinni er fléttað saman fræðandi og lifandi texta við fallegar teikningar sem eru sannkölluð listaverk. Lesandinn hreinlega týnir sér í fróðleik um tré, og allt það sem þau hafa fætt af sér, og hinum ævintýralegu teikningum Piotr Socha af trjám og öllu sem þeim viðkemur. Illugi Jökulsson þýðir bókina alveg hreint frábærlega á áreynslulausa og fágaða íslensku sem hæfir ungum, fróðleiksþyrstum lesendum og fellur vel að efni og inntaki bókarinnar.


Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson, í þýðingu Þórarins Eldjárns

Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson er saga í bundnu máli um kríli, hræðilega morru og stelpustrá. Þar birtist á köflum hrollkaldur heimur en hvort tveggja, ævintýraveröldin og hjartagæskan í bókarlok, skila sér vel til lesandans á afbragðsgóðri íslensku. Í þýðingu sinni nýtir Þórarinn sér hið hefðbundna íslenska ljóðform og sannast að þar fer kunnáttumaður með hryn og ljóðstafi. Fyrir vikið rennur sagan lipurt þrátt fyrir æði flókna ímyndunarveröld textans og á köflum bregður fyrir skemmtilegum rímtilþrifum eins og Þórarinn er þekktur fyrir. Þýðingin á sinn þátt í að skapa draumkenndan heim krílisins, sem hver lesandi þarf að ráða í á sinn hátt.


Minningar múmínpabba eftir Tove Jansson, í þýðingu Þórdísar Gísladóttur

Minningar múmínpabba er 4. sagan í hinum sígilda bókaflokki um múmínálfana. Sagan hefst á því að múmínpabbi veikist heiftarlega, hugar sjálfum sér vart líf og fyrir hvatningu Múmínmömmu ákveður hann að rita endurminningar sínar og rifja upp sín ævintýralegu æskuár. Lækningarmátturinn sem í þessu felst er ótvíræður og í sögulok er múmínpabbi aftur kominn með æskublik í augu. Í söguheimi Tove Jansson er hversdagslegum atvikum, súrrealískri atburðarás og heimspekilegum vangaveltum um lífið og tilveruna blandað saman svo úr verður einstak listaverk fyrir börn og fullorðna. Þórdís Gísladóttir tekst á við það vandaverk að þýða Minningar Múmínpabba og það gerir hún hugvitsamlega, snýr sögunni á auðuga og lipra íslensku og endurskapar einstaka og frjóa töfraveröld múmínálfanna á einkar sannfærandi máta.


Snjósystirin eftir Maja Lunde, í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur

Í aðventusögunni Snjósystirin eftir Maja Lunde sogast lesandinn inn í dularfulla atburðarás sem hverfist um hinn unga Júlían og hans nánustu. Júní systir hans er látin og alls staðar virðist ríkja þögn, þeir Jonni vinur hans kunna ekki lengur að tala saman og Júlían virðist sjálfur ekki skilja hvernig það gerðist. Snjósystirin er hvort tveggja í senn sígilt jólaævintýri en líka kyrrlát og falleg saga með döprum undirtón þar sem tekist er á við vandasöm umfjöllunarefni; vináttu, sorg og missi, og óhætt að segja að hún snerti við lesendum á öllum aldri. Í þýðingu sinni kemur Silja Aðalsteinsdóttir hinu lágstemmda andrúmslofti sögunnar einkar vel til skila á tærri og vandaðri íslensku svo úr verður hrífandi saga fyrir unga sem aldna.


Villinorn: Blóð Viridíönu og Hefnd Kímeru eftir Lene Kaaberbøl, í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar

Blóð Viridíönu og Hefnd Kímeru eru önnur og þriðja bókin í bókaflokknum Villinorn sem fjallar um Klöru sem uppgötvar að hún býr yfir leyndum hæfileikum, hún er norn. Smám saman verður henni líka ljóst að hún hefur mikilvægu hlutverki að gegna, að náttúran þarfnast hennar, og upphefst þá æsispennandi og á köflum ógnvekjandi atburðarás. Í Villinornabókunum hefur Lene Kaaberböl skapað heillandi fantasíuheim með náttúru sem iðar af myrku og villtu lífi. Orðfærið er blæbrigðaríkt og atburðarásin hvort í senn dularfull og spennandi og flæðir áfram í lipurri frásögn Kaaberböl. Jón St. Kristjánsson færir ungum lesendum Villinornasögurnar á myndríkri, vandaðri og ljóðrænni íslensku með orðfæri sem fellur einkar vel að söguheimi bókanna og gerir þær unun aflestrar.

Flokkur
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 15:58
Materials