Smátextar | Spurning

Spurning

Þegar ég mætti í vinnuna eftir hádegið, byrjaði ég á því að sækja mér kaffi. Ég sá strax eftir því þegar ég sá að Sæmi sat inni á kaffistofunni og leit spyrjandi á mig þegar ég gekk inn. Ég sagði ekkert, langaði ekki að tala við Sæma núna. Hann var greinilega ekki á sama máli.

- Hvar ert þú búinn að vera í allan morgun?

- Ég?

- Já sérðu einhvern annan hérna?

Þetta var nákvæmlega það sem ég bjóst við af Sæma. Alltaf þessir stælar, það mátti ekkert gera í friði fyrir honum. Hann þurfti að vita allt. 

- Af hverju spyrðu að því?

- Hvort þú sjáir einhvern annan hérna?

- Nei, hvar ég hef verið í dag?

Ég hafði heyrt að ef maður spyr á móti þá hættir fólk að spyrja mann af því að það hefur enga góða ástæðu fyrir forvitninni. Ekki svo gott þegar Sæmi á í hlut.

- Ja, ekki varstu hér og hvar varstu þá?

- Svei mér, þú bara spyrð og svarar sjálfur

- Hvað áttu við?

- Nú, ég var ekki hér, svo þú færð vinning sem er afgangurinn af kaffinu mínu.

Ég hellti úr kaffibollanum mínum í bollann hans Sæma og það sullaðist yfir hendina á honum og á borðið. Sæmi kippti að sér hendinni og horfði reiður á mig. Hvernig hafði mér dottið annað eins í hug? Eins gott að halda ró sinni úr því sem komið er.

- Hvur andskotinn maður, hvað gengur að þér?

- Það er aldeilis spurningaflóðið sem er látið dynja á manni ef maður mætir ekki klukkan átta alla morgna.

- Er ekki í lagi með þig?

- Nú, það heldur bara áfram að flæða yfir mann. Ég ætti kannski bara að bauna á móti. Af hverju hefur þú saknað mín svona mikið?

- Ha, ég?

- Já, er eitthvað man crush í gangi hérna? Ég hef ekki áhuga ef það er það sem þú ert að hugsa.

- Man crush? Ertu ekki í lagi? 

Það leit út fyrir að Sæmi væri við það að springa. Andlitið á honum hreinlega tútnaði út. Ég finn að ég er sjálfur farinn að svitna í lófunum.

- Þetta er vonlaus barátta, er það ekki? Þú getur ekki einu sinni svarað neinu, bara spyrð og spyrð. Fyrirgefðu Sæmi, ég vissi bara ekki að þú værir svona skotinn í mér.

Sæmi stóð æstur upp úr stólnum og var sótrauður í framan. 

- ÉG ER EKKERT SKOTINN Í ÞÉR!

- Hvernig væri þá að láta mig í friði? Heldur þú að það sé einhver möguleiki?

-Hættu þessu helvítis kjaftæði!

Sæmi strunsaði út af kaffistofunni kaffibollalaus og skellti hurðinni á eftir sér. Ég fékk mér nýtt kaffi og fékk mér sæti. Það er ekki séns að ég segi þessari karlrembu hvað ég var að gera. Ég fengi nú aldeilis háðsglósurnar ef ég segði honum frá þessu yndislega námskeiði. Guð hvað ég hlakka til að klára vinnudaginn svo ég geti farið heim að hekla fleiri ömmudúllur. 

Höfundur: Oddfreyja H. Oddfreysdóttir 

Næsti smátexti: Faðirinn