Smátextar | Öfugmæli

Öfugmæli

Í barnæsku lásum við öfugmælavísur:
„Séð hef ég köttinn syngja á bók“
og fannst þær fyndnar.

Uppkomin misstum við áhugann
á slíkum kveðskap.

En við kynntumst öfugmælaskáldum nútímans
sem reyna að telja okkur trú um að 
veruleikinn
sé allt annar en við skynjum,
að allt geti batnað ef við fylgjum ráðum þeirra.

Megrunarkúrar,
fæðubótarefni, 
töfrasmyrsl, 
ávöxtunartækifæri, 
framfarir 
og 
jöfnuður.

Stundum vildi ég að til væri nýtt starfsheiti:
Öfugmælavörður.

Grípur inn í ef
lagt er ólöglega
á trúgirni fólks 
eða 
dvalið
á villigötum.

En það má víst ekki sekta 
fyrir innistæðulausan fagurgala.
Annars væru flestir stjórnmálamenn orðnir staurblankir.

Ég fer því aðra leið.

Ég finn góða steina
og skrái öfugmælin á þá.
Þau grófustu sverf ég djúpum förum
til að þau máist aldrei út.
Önnur mála ég á yfirborðið
með sterkum litum sem ekki skolast af.

Ég raða steinunum upp í vörður
sem standa á almannafæri
öðrum til viðvörunar.

Öfugmælavörður.

 

Höfundur: Stefán Halldórsson

Næsti smátexti: Kallinn í kjallaranum