Smátextar | Kallinn í kjallaranum

Kallinn í kjallaranum

Hann platar mig ekki, kallinn í kjallaranum. Ég hef fylgst með honum lengi. Séð hann liggja á gluggum. Góna á ungviðið. Klappa þeim. Gefa nammi á virkum degi. Hann platar mig ekki, röltandi um róluvellina. Strýhærður með staf. Nusandi. Haltur. Hann platar mig ekki, sitjandi á bekk á skólalóðinni. Með opna skyrdós og hangikjötsbita. Ég veit of mikið. Veit að hann handfjatlar skóna í sameigninni. Raðar eftir stærð. Minnstu pörin fyrst. Veit að hann bankar hjá barnafólki með kerti til styrktar Kattholti. Ég veit því ég hef fylgst með honum. Lengi. Fundið fjósafnykinn. Heyrt hurðaskellina. Séð tárin í janúarsnjónum. Hann platar mig ekki, jólasveinninn í kjallaranum, sem þykist vera gamall kall.   

Höfundur: Unnur María Sólmundsdóttir 

Næsti smátexti: Tilkynning frá Sérsveitinni