Smátextar | Faðirinn

Faðirinn

Fagnaðarlæti brutust út í Hörpu þegar Oprah Winfrey kynnti bíómyndina „Við erum hætt að eyða peningum í að draga börnin upp úr brunninum“, sem fjallaði um fyrsta barnamálaráðherra Íslands. Faðirinn var framarlega fyrir miðju hægra megin og meðal þeirra sem ákafast fögnuðu. Myndin var frumsýnd á ársfundi Alþjóðafélags lögfræðinga í opinberri þjónustu og á slíkum fundi var sjaldgæft að miklar ástríður færu um sali.

Fagnaðarlætin virtust því koma Opruh þægilega á óvart. En ráðherrann var í essinu sínu þegar hann gekk upp á svið til að segja nokkur orð. Faðirinn íhugaði að sýna aðdáun sína með því að standa upp og klappa sem ákafast en missti af andartakinu því nú var ávarp ráðherrans byrjað.

„Í starfi mínu vildi ég marka djúp spor,“ sagði hann með þeirri háu en einlægu rödd sem einkenndi hann. „Ég sá það fljótt að hægt væri að auka lífsgæði barna til muna á 10 árum. Nú hefur það verið staðfest.“

Faðirinn var djúpt snortinn í sæti sínu framarlega til hægri. Hann var ákveðinn í að gera sitt besta til að njóta foreldrahlutverksins. Faðirinn vissi að það væri ekki sjálfgefið að vel tækist til. En starf ráðherrans hafði lagt góðan grunn.

Ráðherrann hélt áfram: „Lykilþáttur til að ná þessum árangri var að byrja hverja vinnuviku á að hitta manneskju sem ég hafði ekki áður talað við. Ég ætlaði ekki að vera svona „Já ráðherra” og samþykkja eingöngu tilbúin mál frá ráðuneytisstjóranum. Og ég ákvað að taka til hendinni í málefnum barna.“  

Nokkrir í salnum gátu ekki stillt sig um að klappa og faðirinn tók undir. Hann nýtur þess að taka virkan þátt í lífi barna sinna. Hann er ánægður með sína fjögurra daga vinnuviku og  þau lífsgæði sem fylgja. Honum tekst að sinna sínum eigin þörfum, auk þess sem hann hefur tóm og þrek til að styðja konuna sína sem gegnir stjórnunarstöðu á mannlega sviðinu. Hann er stoltur af því að þekkja nöfn vina barna sinna og meira að segja foreldra þeirra. Hjónin leggja bæði mikið upp úr því að kenna börnum sínum seinkaða umbun og safna alltaf fyrir kostnaði heimilistækja, húsgagna og sumarleyfa fjölskyldunnar. Þau nýta snjalltæknina til að vera í tengslum yfir daginn en á heimilinu láta þau tækin ósnert. Nú þegar hjónin eru búin að borga námslánin vill eiginkonan fækka vinnudögum sínum í fjóra daga til að njóta lífsins með fjölskyldunni frekar en að stækka húsnæðið.

Áratug áður, þegar þessi metnaðargjarni ráðherra kom til starfa, hafði hann sagt að koma mætti í veg fyrir meirihluta erfiðra fjölskyldumála með ákveðnum aðgerðum. Margir hlýddu á og studdu ráðherra af því að þeir fundu að það var tímabært. Annar hópur studdi hann þar sem hætta var á að fólk sem upplifði erfiða æsku án þess að foreldrar þeirra fengju viðeigandi aðstoð, gæti gert kröfur á hendur ríkinu, samkvæmt þeim tíðarenda sem þá var að renna upp. Og það gæti kostað áður óþekktar upphæðir.

„Ég nýtti tíðarandann,“ hélt ráðherrann áfram, „og fékk umhverfissinna með mér í lið þar sem ég komst að því að alvarlega stressaðir foreldrar ættu sök á stærstu kolefnissporunum.  Börn stressaðra foreldra eru til dæmis lengur á bleyju en önnur börn. Einnig skilja stressaðir foreldrar frekar, sem þýðir - fyrir utan allt annað - aukið skutl með barnið hingað og þangað, tvö barnaherbergi og tvöfaldan fataskáp. Ég náði að sýna fram á að með því að styðja verkefnið var fólk í senn að jafna hlut kynjanna og um leið leggja á hilluna gömlu feðraveldishugmyndina, að konur sjái að mestu um uppeldi og umönnun.

Ég hóf starfið á að tryggja að börn hefðu allavega tvo fullorðna umönnunaraðila, og alltaf þrjá frekar en einn. Það lá fyrir að þáttur feðra í uppeldi barna væri lítið nýttur. Þessu breytti ég með liðstyrk félaga minna úr flokknum auk skóla og íþróttafélaga.“

Ráðherrann lýsti því sposkur að einhverjir hefðu lýst áhyggjum yfir því að ráðstafanir hans kæmu illa við marga sem hefðu fyrst og fremst áhuga á að bæta stöðugt tíma sinn í þeirri hjólreiðakeppni sem þá var líf og yndi svo margra. Með því að sinna fjölskyldunni svo vel, til viðbótar við hjólreiðakeppnina, gæti það valdið því að ekki væri til afgangsorka til þess að viðhalda stofninum.

Ráðherrann brosti þegar hann sagði þetta og salurinn hló með honum. Faðirinn skellti upp úr. Oprah kinkaði kolli brosmild, þótt hún skildi sjálfsagt ekki hvað ráðherrann hafði sagt.

Ráðherrann hélt áfram máli sínu. Hann talaði um aðgerðir í  málefnum fjölskyldna sem höfðu gleymst ofan í skúffu í meira en áratug. En hann svipti upp skúffunni! 

Aðalþátturinn var að vitneskja 21. aldar um hvernig styrkja mætti fjölskyldur var loksins nýtt. Þær aðgerðir gengu út á í fyrsta lagi fræðslu um fjölskyldumál í grunn-og framhaldsskólum, í öðru lagi fræðslu fyrir verðandi foreldra sem þjónaði þörfum beggja kynja, í þriðja lagi stuðning og ráðgjöf til foreldra, velji þeir að að ala barnið upp á tveimur heimilum.

Ráðherrann leit í spegil og mætti ánægðum augum föðursins.

Höfundur: Ólafur Grétar Gunnarsson
Meðhöfundur: Valdimar Sverrisson

Næsti smátexti: Fjarlægu feðurnir og vanhæfu embættismennirnir