Smátextar | Appið

Appið

Þetta byrjaði mjög vel. Nýja appið varð strax geysivinsælt, enda hafði það verið þróað í Hafnarfirði þar sem híbýli álfa eru úti um allt. Þegar gengið var með símann um bæinn birtust hér og þar skilaboð sem vísuðu á klett í nágrenninu sem væri heimili álfa. Stundum lá við öngþveiti því þúsundir voru búnar að ná í appið og vildu njóta leiðsagnar þess. Þetta virtist geta orðið enn stærra æði en Pókémon-leikurinn fyrir nokkrum árum.

Svo fóru undarlegir hlutir að gerast. Í stað leiðsagnar að álfabyggðum fóru að birtast skrítin skilaboð, eins og „Láttu okkur í friði“, „Farðu burt“ og „Við viljum ekki þennan átroðning“. Framleiðendur appsins komu af fjöllum. Þetta var ekki frá þeim komið. Óánægðir kaupendur appsins kröfðust skýringa og fengu þau svör ein að þetta væri líklega vírus frá rússneskum hökkurum. 

Nú var ekki lengur gaman að þessu. Flestir hentu appinu út og sóttu sér annað, oftast um matarinnkaup án plasts sem var nýjasta æðið. En nokkrir áttu appið áfram, nenntu ekki að taka til á skjánum, enda var nægt minni í símanum. Ég var einn þeirra.

Fyrir þremur vikum fór ég af rælni að fikta í appinu þegar ég var á gangi í Gálgahrauni. Ég gekk fram hjá kletti sem Kjarval hafði oft málað - og sjá: Þá birtist rammi á skjánum og í honum stóð: „Ég vil vera vinur þinn – ýttu á slóðina.“ Það gerði ég og nú á ég Facebook-vin sem að vísu er nafnlaus og það er engin auðkennismynd á síðunni hans. Af og til birtast færslur á síðunni minni með ósýnilegri mynd og ósýnilegum texta. Ég veit ekki hvað hann er að segja mér. Það er allt á huldu, enn sem komið er.

Höfundur: Stefán Halldórsson

Næsti smátexti: Öfugmæli