Heimspekisamtal

Heimspeki og gagnrýnin hugsun á bókasafninu

UNESCO hefur tilnefnt þriðja fimmtudag í nóvember sem alþjóðadag heimspekinnar. Okkur langar að nota tilefnið og minna á tengingu bókasafna við gagnrýna hugsun, lýðræðisþátttöku og gildi samfélagsins. Í nóvember fóru fram fjögur heimspekisamtöl á bókasafninu þar sem rætt var um völd, réttlæti og tengsl í samfélaginu okkar. Í samtalinu opnuðu heimspekinemar við Háskóla Íslands á umræðu með spurningum eins og:  

Er réttlátt að taka þátt í slaufun?  
Hvað telst til borgaralegrar óhlýðni?  
Hvert er gildi náttúru í kapítalísku samfélagi? 
Eru samfélagsmiðar ógn við lýðræðið? 

Gagnrýnar umræður af þessum toga munu svo halda áfram á Framtíðarfestivali Borgarbókasafnsins, þann 25. janúar 2025. Á Framtíðarfestivalinu munum við virkja ímyndunaraflið, dýfa okkur í framtíðarpælingar og máta okkur inn í framtíðarsýnir heimspekinga, listafólks, aktívista og hugsjónafólks á öllum aldri. Þar gefst tækifæri til að losna úr fjötrum hversdagsleikans og þróa fjölbreyttar framtíðir sem svara áhyggjum sem varða tengslarof, ójöfnuð og vistkreppu samtímans.  

Öllum er velkomið að taka þátt í Framtíðarfestivalinu og leita lausna til að koma í veg fyrir að vandamál samtímans fylgi okkur inn í framtíðina. 

Lýðræði og borgaraleg þátttaka er bókasöfnum mikilvæg. Borgarbókasafnið hlúir að virkri þátttöku í samtali um gildi og þróun samfélags framtíðarinnar með reglulegum viðburðum og verkefnum. Þar er hægt að fræðast, ræða málefni með gagnrýnum hætti og hafa áhrif á nærumhverfi sitt. 

Hér eru frekari upplýsingar um Framtíðarfestivalið ásamt nokkrum af fjölmörgum heimspekibókum sem finna má á bókasafninu. 

Framtíðarfestival

Flokkur
UppfærtMánudagur, 13. janúar, 2025 13:48
Materials