Samfélag | Núritun Live Coding Space
Samfélag fyrir núritara
Núritun Live Coding er samfélag fyrir þau sem hafa áhuga á núritun (live coding), byrjendur og lengra komin. Hittingarnir henta öllum þeim sem hafa áhuga á skapandi tækni, forritun eða listsköpun, engin tónlistarmenntun eða fyrri reynsla þarf að vera til staðar. Það eina sem þarf er forvitni og opinn hugur! Núritun Live Coding er samfélag til að tengjast, vinna saman að verkefnum og læra nýja tækni. Við lærum hvert af öðru og dýpkum þekkingu okkar á núritun.
Hvenær hittumst við?
Annan hvern mánudag frá kl. 16:30-17:45 á Verkstæðinu á 5. hæð í Grófinni. Þetta eru opnir hittingar og er því velkomið að mæta þegar þú vilt.
Dagsetningar: 27. janúar, 10. febrúar, 24. febrúar (lærum að nota forritið Strudel), 10. mars, 24. mars, 14. apríl, 28. apríl, 12. maí og 26. maí.
Hvað er núritun?
Live Coding eða núritun er skapandi nálgun á forritun þar sem flytjandinn býr til tónlist eða myndlist með því að skrifa, breyta og meðhöndla kóða í rauntíma, venjulega fyrir framan áhorfendur.
Á síðustu áratugum hefur þessi iðkun orðið að kraftmikilli skapandi listgrein á menningar- og tæknisviðum, meðal annars í tónlist, myndlist og tölvunarfræði. Í núritun fer sköpunin og tónsmíðin fram í rauntíma. Flytjandinn getur haft áhrif á flutninginn með myndefni, hreyfingu eða hverju sem er sem hægt er að stjórna. Kóðanum er oft varpað á skjá þar sem áhorfendur geta fylgst með.
Öll velkomin, engin skráning - bara mæta. Hittingarnir eru á íslensku og ensku.
Áhugavert fyrir núritara:
TOPLAP
Algorave
Strudel & TidalCycles
Nánari upplýsingar veitir:
Karl James Pestka
karl.james.pestka@reykjavik.is | 665 0898