Elva Dís Hekla Stefánsdóttir

Borgarbókasafnið Klébergi | „Samfélagið á Kjalarnesi var tilbúið í gott bókasafn“

„Ég hélt það yrði rólegt í júní en það kom mér á óvart hversu mikið var að gera. Samfélagið á Kjalarnesi var augljóslega tilbúið í gott bókasafn.“

segir Elva Dís Hekla Stefánsdóttir, bókavörður á Borgarbókasafninu Klébergi á Kjalarnesi. Bókasafnið, sem opnaði í maí síðastliðnum, er áttunda bókasafn Borgarbókasafnsins en það gegnir jafnframt hlutverki skólabókasafns í Klébergsskóla.

„Krökkunum þótti þetta mjög spennandi í vor og voru alltaf að spyrja hvenær ætti að opna.“

Þótt safnið í Klébergi sé ekki stórt að flatarmáli þá er þar afar notaleg stemning og tilvalið fyrir hópa að hittast t.d. leshópa eða hannyrðahópa. Einnig er velkomið að tilla sér niður við eitt af borðunum til að sinna heimanáminu eða grípa sér bók úr hillunni og hlamma sér í sófann.  Safnið hefur að geyma fjölbreyttan bókakost á íslensku og ensku, fjölmarga barnabókatitla og ágætt safn unglingabóka, auk skáldsagna, ævisagna og fræðibóka.

„Einnig get ég pantað bækur af öðrum söfnum Borgarbókasafnsins ef þær eru ekki til hjá okkur, þá koma þær næsta mánudag á eftir.  Það er líka hægt að fá sendar bækur af bókasöfnunum í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi. Þá erum við að vinna í því að stækka bókakostinn á rússnesku og pólsku en hér býr fjölmennur hópur fólks sem talar þessi tungumál.“

En skyldi Elva Dís sjálf vera mikill lestrarhestur?

„Já, mér finnst alltaf gott að vera með bók við höndina. Ég er mest í glæpasögunum, finnst til að mynda Þriðja röddin eftir Camillu Läckberg og Dansarinn eftir Óskar Guðmundsson mjög góðar.“

Borgarbókasafnið Klébergi er opið á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 14:00 – 18:00. Gengið er inn norðan megin í Klébergsskóla, nær sjónum. 

Börn undir 18 ára fá ókeypis bókasafnskort  - fullorðnir greiða 2.900,- fyrir árskort.

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 23. nóvember, 2023 06:29