Bartolomeo Crivellari, 1756

KVEIKJA | Hugvekjur um eld og innblástur

KVEIKJA er viðburðaröð á Borgarbóksafninu um innblástur í lífi og list, um eldinn sem fær fólk til að skapa. Fjallað var um áhrif, skynjun, og eilífa glímu við andagift. Fræðimenn og listafólk komu saman tvö í senn og fluttu hugvekju um sín hugðarefni og brugðust við hugmyndum hvors annars. Í lokin svöruðu þau spurningum gesta m.a. um sköpunar- og vinnuferli.

Ramminn utan um þessar þrjár Kveikjur sem voru haldnar í febrúar og mars á þremur stöðum safnsins, kemur úr sköpunarsögu í grískri goðafræði. Goðsagan er fræ sem var sáð í upphafi og þátttakendur fengu frjálsar hendur að vinna úr.  Þegar heimurinn var skapaður þá hafði Seifur ekki hugsað sér að gefa mannskepnunni eldinn, hann var kraftur sem var einungis guðanna. Prómeþeifur stal hins vegar eldinum frá guðunum og gaf mannfólkinu að gjöf. Manneskjan gat því eldað sér mat og verið sjálfbær, en með eldinum eignumst við einnig ímyndunarafl og hugmyndir, allt það sem kveikir neista sköpunar. Prómeþeifur gaf því mannfólkinu möguleika á fögrum listum. Seifur fylltist stórkostlegri gremju yfir athæfi Prómeþeifs. Hann refsaði því Prómeþeifi grimmilega, hlekkjaði hann á kletti í Kákasusfjöllum. Dag hvern kom örn aðvífandi og át lifrina úr Prómeþeifi, en á hverri nótt greri lifrin aftur. Þetta endurtók sig daglega og það var víst ekki fyrr en ári síðar að þessi eldgjafi losnaði frá hlekkjum refsingar Seifs, því þá mætti Heraklítes á svæðið og drap örninn við iðju sína. Dæmisaga um eld, gjöf og fórn. Spurning er hvort listamenn gefi innyfli sín til fugla heimsins, í þeirri vissu að það grói um heilt aftur. Það er örugglega mismunandi hvernig hver og einn tengir við þessa goðsögu, og hvernig eldur og örn birtast í lífi og sköpun.

Á KVEIKJU þann 23. febrúar í Borgarbókasafninu Gerðubergi, fluttu þau Birna Bjarnadóttir, doktor í bókmenntum, og Gauti Kristmannsson, þýðandi og prófessor í þýðingarfræðum, hugvekju um reynslu þeirra af Töfrafjallinu eftir Thomas Mann, skáldsögu frá árinu 1924. Birna fjallaði um tilraun lista- og fræðimanna um skynjun á lykilverki heimsbókmennta, um leiðangur sem þau fóru saman með hóp lista- og fræðimanna á Töfrafjallið og Gauti um glímu sína við þýðingu á þessari skáldsögu 20. aldarinnar. Þau fjölluðu af ástríðu um reynslu sína af fagurfræði Töfrafjallsins, og þeirri upplifun að fara í hópi listamanna til Davos þar sem sagan gerist og stíga inn í sviðsmyndina. Að orð ná ekki yfir alla þá skynjun sem slík upplifun er og sem hún framkallar enn í dag. Birna sagði frá uppsprettu verksins og Gauti kom inn á hugtakið heimsbókmenntir og glímu sína við að þýða þetta mikla bókmenntaverk yfir á íslensku, sem er verk í vinnslu. Það var meðal annars komið inn á það hvað þarf til að kalla verk til heimsbókmennta og hvernig listin getur hreyft við okkur og bergnumið. Erindi og spjall þeirra Birnu og Gauta var verulega fróðlegt og gefandi. Hvað er skáldskapur og úr hverju sprettur hann - hvað gefur hann okkur?

Á KVEIKJU þann 16. mars í Borgarbókasafninu Kringlunni, voru það listamennirnir Friðgeir Einarsson og Ingibjörg Magnadóttir sem héldu hugvekjur um reynslu sína af skrifum fyrir svið og áheyrendur/áhorfendur, bæði leikhús, gjörningalist, útvarp – sem og um það að vera starfandi listamaður. Þau sögðu frá verkum sínum og hvernig þau hafa sprottið upp, jafnvel á löngum tíma, um þessa eilífu glímu við andagiftina, að halda í neista sem kviknar, eða endurvekja hann og fylgja óljósum þræði, stundum í mikilli óvissu og leit að uppsprettunni. Þau voru sammála um að starf listamannsins tengist innsæinu sterkum böndum og það geti verið afhjúpandi, en það sé einfaldlega hluti af starfinu. Listamenn eru oft á tíðum að vinna með sinn eigin skugga og varpa honum til heimsins og fólk speglar sig. Friðgeir sagði frá vinnuferlinu á leikverkinu Club Romantica, sem vann til Grímuverðlauna. Frá upphafskveikjunni, er hann kaupir myndaalbúm ókunnrar konu á markaði í Evrópu. Ingibjörg sagði frá því hvernig hún vinnur með leikhúsmiðilinn sem myndlistarmaður, að hún noti leikhúsið eins og striga eða málningu. Það mætti segja að þau skrifi bæði óhefðbundin leikrit, komi inn um aðrar dyr í leikhúsið. Ingibjörg sagði einnig frá útvarpsleikritinu Rökrásin, sem var tilnefnt til Grímuverðlauna, að skrifa fyrir eyrað, mála með hljóði og orðum. Þau spjölluðu vítt og breytt um list sína og kveikjur, um fórnir og gjafir og spennandi umræður vöknuðu, m.a. um tengsl sálgæslu og listar.

Á Kveikju þann 23. mars í Borgarbókasafninu Grófinni, var stefnumót þeirra Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, listamanns og Vals Brynjars Antonssonar heimspekings og kennara. Bæði hafa þau fengist við ljóðlist og fjölluðu um flæði og sannleika í listinni og upplifun sinni af eigin sköpun og annarra. Ásta las ljóðið Silkileið nr. 17 sem flæðir um frá einni mynd til þeirrar næstu og dregur lesandann í innra ferðalag handan orðanna. Hún hefur unnið á mærum lista, með eigin skáldskap, gjörninga og tónlist og er tungumálið einungis einn þráður af mörgum í list hennar. Valur hóf erindi sitt á spurningunni: Hvað fær fólk til að vera skapandi? Hann fjallaði ekki síst um það hvað hindrar sköpun og flæði, hvað veldur því að við föllum úr flæðinu, hvort heldur í lífi eða starfi. Áreiti að utan truflar og getur gert það að verkum að við getum ekki staldrað við og jafnvel ekki hvílst. Hann fjallaði um syndina leti frá fornu fari, sem hann hefur misskilið, og líklega við öll. Þá er brotið á því að virða ekki hvíldardaginn, að geta ekki hvílt sig í guði. Þetta innra eirðarleysi að hendast úr einu í annað, vera hvorki né. Annað orð yfir þá synd væri mögulega kæruleysi sem hindrar fólk frá því að komast í flæði og tengsl við guðdóminn, hvernig sem við svo skilgreinum guðdóm eða heilagleika og hvað hann er í lífi hvers og eins. Margt við starf listamannsins er líkt starfi munka og nunna sem helga sig ákveðnu verkefni, loka sig af til að ýta frá sér freistingum, og þurfa að neita sér um veraldleg gæði. Valur og Ásta veltu fyrir sér innri áhugahvöt og köllun til sköpunar, hvað er það sem virkjar flæði og gerir það að verkum að við getum gleymt okkur í flæði. Það er innri skortur sem gerir það að verkum að við sækjum í ytra áreiti. Í þessu ferli er mikilvægt að flýja ekki frá erfiðum tilfinningum, grátur og tár getur verið mikilvæg hreinsun og möguleg upprisa, jafnvel gjöf til heimsins. 

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 19. apríl, 2022 12:38