Lesandinn | Magnús Guðmundsson
Magnús Guðmundsson er bókmenntafræðingur að mennt. Hann starfaði árum saman sem auglýsingamaður en sneri sér síðan að menningarblaðamennsku og starfaði lengst af sem ritstjóri menningar á Fréttablaðinu. Síðustu ár hefur Magnús fengist við ritstörf samhliða ýmsum verkefnum í blaðamennsku og textagerð. Árið 2001 sendi Magnús frá sér skáldsöguna Sigurvegarinn sem hlaut góðar viðtökur og gaf nú nýlega út sína fyrstu spennusögu, Hægt og hljótt til helvítis.
Eftir að hafa tekið upp á þeim ósköpum á miðjum aldri að taka aftur til við skrifa skáldskap eftir tuttugu ára hlé leita á mig spurningar. Af hverju hugsa ég og skrifa eins og ég geri? Og eftir að hafa legið í sófanum í dágóða stund og velt því fyrir mér (ég reyndar svaf megnið af tímanum) komst ég að niðurstöðu. Fyrir það þakka ég doktor Sigmund Freud sem áttaði sig á því að maður hugsar betur og er allur opnari þegar maður liggur fremur en að sitja eins og kjáni. „Hví að sitja þegar maður getur legið,“ er kannski ekki haft eftir Freud en hann hefði pottþétt fílað þá speki.
Niðurstaðan sem ég komst að í sófanum er einfaldlega þessi: Líf og lestur. Það er það sem skiptir öllu máli, þegar bókstaflega upp er staðið af sófanum og sest við skriftir.
Tarzan og aðrar æskuhetjur
Ekkert af þessu kom mér á óvart en hins vegar rak mig eiginlega í rogastans yfir þeim bókum sem höfðu komið upp í hugann í sófanum. Í æskunni var auðvitað frú Enid Blydon þarna með öllum sínum leyndardómsfullu eyjum, kastölum, nestiskörfum, smyglurum og eins og ég komst að síðar vandræðalega augljósum kynþátta- og stéttafordómum. Bræðurnir Frank og Jói voru líka á sínum stað, rétt eins og kapparnir Tom Swift og Bob Moran að ógleymdum Tarsan, konungi frumskógarins.
Mér að óvörum birtist svo skyndilega sárafátækur, óharnaður danskur unglingsdrengur með fjölskyldu á framfæri og skautaði á flatbytnunni sinni yfir ísilagaða firði og allar þessar forréttindahetjur. Minn gamli vinur Sandhóla-Pétur sem ég hafði fundið í snjáðum bindum í bókaskáp barnaherbergisins hjá ömmu og afa. Eftir því sem ég kemst næst kom Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard, fyrst til íslenskra unglinga stuttu fyrir seinna stríð og hafa eintökin sem ég komst yfir því líklega tilheyrt móðurbræðrum mínum. Þessar bækur eru mér löngu týndar og líklega er það best þannig svo ég geti látið nægja að ylja mér um minninguna, hughrifin og uppljómunina sem fólst í þeim sannindum að venjulegur, fátækur alþýðupiltur getur verið hetja með því að takast á við lífsbaráttuna fremur en Gula skugga og illa innrætt þjónustulið enska aðalsins. Hvílíkur léttir!
Í dag man ég fátt um þær raunir sem Sandhóla-Pétur tókst við á hverri blaðsíðunni á fætur annarri en í huga mér marka kynni okkar engu að síður upphafspunkt þeirrar mikilvægu hugmyndar að bækur geti breytt bæði mér og heiminum til hins betra. Það er falleg og mikilvæg hugmynd.
Það var þó ekki fyrr en einhverjum árum síðar sem fegurðin hélt innreið sína í samband mitt við bækur. Eftir að hafa stundað þann ósama um nokkra hríð að skrópa í Réttó, þegar færi gafst, til þess að liggja heima í sófa með töffurum á borð við Allistair McLean og Sven Hazel, kom enn og aftur gömul og löngu útgefin bók inn í líf mitt.
Dýrðardagar með Maxim Gorkí
Móðirin eftir Maxim Gorkí kom fyrst út á hjá Máli og menningu í dýrlegum tveimur bindum á íslensku í þýðingu Halldórs Stefánssonar árið 1936. Titill, höfundur og útgáfufélag þrykkt í hrjúfa kápuna og innihaldið angaði af einhverju óræðu og heillandi sem maður getur aðeins fundið á milli blaðsíðna í gömlum bókum. Ég reif í mig hverja síðuna á fætur annarri, fyllilega ómeðvitaður um að hér væri á ferðinni bók sem af mörgum spekingum er talin marka upphaf sósíalrealisma, með þeim afleiðingum að ekki varð aftur snúið. Á örfáum sólarhringum hafði það sem stóð mér til boða í Borgarbókasafninu undir Bústaðakirkju margfaldast. Við tóku dýrðardagar án minnsta skyldleika við almættið á efri hæðinni.
Og til þess að gera langa sögu stutta er þetta sem ég elska hvað mest við bækur: Þessi dásamlegi hæfileiki til þess að koma mér á óvart. Fá mig til þess að sjá umhverfið, samfélagið, mig sjálfan og jafnvel framtíðina í nýju ljósi.
Mennska, kolvartur húmor, femínismi og viðkvæm fegurð
Upp í hugann koma lítt þekktar bækur eins og Taumhald á skepnum eftir hinn stórundarlega enska rithöfund Magnus Mills í ljómandi þýðingu Ísaks Harðarsonar. Bók uppfull af kolsvörtum húmor og mennsku í senn. Hvernig ég kynntist fiskunum, eftir tékkneska rithöfundinn og íþróttablaðamanninn Ota Pavel í snilldarþýðingu Gyrðis Elíassonar. Bók sem ýtti mjúklega í mig og fékk mig til að hugsa aðeins um hver ég er og vil vera.
Í sumar las ég líka svona óvæntan gullmola sem heitir Álabókin. Sagan um heimsins furðulegasta fisk, eftir sænska rithöfundinn Patrik Svensson í fallegri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Dásamleg bók sem er ekki aðeins um líf þessa stórmerka fisks, heldur einnig mannskepnuna í bæði ljótleika hennar og fegurð. Hvað getur nokkur lesandi beðið um meira?
Jú, við eigum öll að lesa Við ættum öll að vera femínistar, eftir Chimamanda Ngozi Adichie, einfaldlega af því að heimurinn þarf á því að halda.