Lesandinn | Sigursteinn Másson

Sigursteinn Másson, rithöfundur, blaðamaður og aðgerðarsinni er lesandi vikunnar að þessu sinni. Bók Sigursteins, Geðveikt með köflum, má finna hér á bókasafninu ásamt öðrum bókum eftir hann – sjá meðfylgjadi bókalista. Í dag deilir hann með okkur þeim bókum sem hann unir mest þessa dagana.

Bóklestur minn kemur og fer í bylgjum og er talsvert árstíðabundinn. Þannig les ég yfirleitt mest á haustin og auðvitað um jól en minna þess á milli. Ég hef á þessu ári byrjað að hlusta á hljóðbækur og hlaðvörp en stend mig að því að hoppa mikið á milli verka. Sennilega er það bara einhver ógreindur athyglisbrestur en ég mætti endast betur og halda mig lengur við hvern lestur. Reyni að telja mér trú um að tímaskorti sé um að kenna en líklega frekar forgangsröðun um að kenna.

Þessar vikurnar hef ég haft þrjár bækur á náttborðinu. Ísland,  171 áfangastaðir í alfaraleið eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson er bók sem ég hef mikið gripið í í vor til undirbúnings Íslandssumrinu mikla.  Bókin er auðlæsileg og skemmtilegt hvernig þessi snillingur kynnir til sögunnar staði vítt og breytt um landið sem maður vissi lítið eða ekkert um og hafði ekki hugleytt að heimsækja. Ég nefni í þessu sambandi Glerhallavík í Skagafirði. Reykjaströndin er staður sem ég hef aldrei heimsótt en vegna þessarar bókar verður nú breyting þar á.

Önnur bók sem ég gríp í fyrir svefninn er íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson. Bókin fjallar um útlit allskonar fugla, lífshætti og búsvæði. Áður en ég skoðaði þessa bók hafði ég enga hugmynd um að það eru allavega tólf tegundir af mávum á Íslandi. Dálítið skelfileg uppgötvun þar sem ég kann ekki góða sögu að segja af mávum eftir viðskipti mín við þá á Laugarvatni sem barn og unglingur með silunganet í vantinu.

Að lokum vil ég nefna Svipmyndir úr Síldarbæ eftir Örlyg Kristfinnsson. Örlygur safnar þar sögum um litríkar persónur á Siglufirði sem settu mark sitt og svip a bæjarlífið fyrr á árum. Í bókinni eru margar skemmtilega sögur sagðar eins og af því þegar ungir menn fylltu Svörtu Maríu lögreglunnar af heyi á meðan lögreglumenn höfðu afskipti af góðglöðum gestum að loknum dansleik í bænum. Bókin er skemmtilega skrifuð af Örlygi sem hefur verið máttarstólpi menningarlífs í þessum merka kaupstað um áratugaskeið.

Ég reyni sem mest að hafa bækur á náttborðinu mínu sem mér líður vel að svífa í draumalandið með. Þetta eru þannig bækur.

 

UppfærtMánudagur, 29. apríl, 2024 14:28
Materials