Margt smátt | Pepsí
Pepsí
Yfirleitt er ég á undan tilkynningunni „Góðir farþegar, nú lækkum við flugið…“ til að lyfta borðinu og festa sætisólar og oftast er ég nýbúinn að stinga fartölvunni í svörtu hliðartöskuna þegar gjallandi kveðjan berst um kallkerfi vélarinnar. Venjulega næ ég að lygna aftur augunum og hvíla um stund annars stífan hnakkann til að njóta lokaorðanna: „velkomin heim.“ Skilaboð sem nær undantekningarlaust senda mig norður í Skagafjörð en hvergi annars staðar er meira heima en þar. Dvel þar of sjaldan. Reikna snöggvast út að gamni mínu en þó til gremju að ég verji meiri tíma í háloftunum en í Fagranesi. Það væri áhugavert að slá þessu upp í excel, hugsa ég um leið og harkaleg lendingin kippir höfðinu á mér fram og þegar ég gægist út um egglaga gluggann blasir grámóskuleg umgjörð flugvallarins við. Jólin verða þá sennilega rauð.
Stend röggsamlega upp undir fyrsta klikki farangurshólfanna og nýti mér þann forgang sem við Sagaklassgestir höfum. Göngum ávallt fyrstir frá borði rétt eins og okkar bíði stærri og mikilvægari verkefni en hins almenna farþega sem fær þó, ef framarlega situr, að berja elítuna augum. Vildi glaður ganga héðan síðastur út, þótt á Þorláksmessu sé, en venju samkvæmt set ég undir mig hausinn og læt sem framtíðin öll bíði í ofvæni eftir mér. Hið innra líður mér frekar sem fremsta syrgjanda í jarðarför og gott ef ekki að ég greini samhryggð í mænandi augum meðfarþega minna sem tvístígandi bíða eftir langþráðri jarðtengingu. Þar erum við þó á sama báti.
Þegar ég á aðeins þrjú skref eftir innan vélar heyri ég rödd hennar. „Gleðileg jól, Merry Christmas!“
Undrandi lít ég upp og mæti geislandi augnaráði Sólveigar undir kaskeiti flugfélagsins. Rétt eins og mér er henni brugðið.
„Nei, sæll,“ segir hún og endurheimtir brosið snarlega.
„Blessuð,“ segi ég og nem ósjálfrátt staðar og finn um leið hvernig flaska í fríhafnarpoka slengist frekjulega í aftanvert lærið á mér.
„Gaman að sjá þig,“ segi ég allt of hátt og opinbera þannig geðshræringu mína.
„Sömuleiðis,“ segir hún og horfir greindarleg í gegnum mig.
Við vorum saman á fyrsta ári í verkfræðinni og það er henni að þakka að ég komst í gegnum stærðfræðigreininguna. Eiginlega kynntumst við fyrir tilviljun. Í byrjun hausts var árgangurinn nokkuð fjölmennur en fljótlega eftir að heimadæmin helltust yfir fór að fækka í hópnum. Að leysa dæmin varð mörgum okkar ofviða, þar á meðal mér. Það var svo eitt kvöldið þegar ég sat frameftir uppi í skóla og rembdist við að skilja mér nær óskiljanlegt torf sem ég fyrst tók eftir henni. Það er reyndar ekki alveg rétt. Í um hundrað manna hópi hafði hún þá þegar vakið athygli mína með einstökum þokka sínum en þetta kvöld þegar ég virti hana fyrir mér í laumi, gerði ég mér grein fyrir því að hún minnti mig á Guðbjörgu ömmu, manneskju sem ég mest allra lít upp til. Við sátum hvort á sínu borðinu og mér varð skjótt ljóst að getu okkar í stærðfræði væri vart saman að jafna þar sem blýantur hennar hvíslaði ákaft tölum og táknum á blað á meðan ég eyddi mestum tíma í að stroka þjösnalega út máttlitlar tilraunir til réttra svara.
Fljótlega stóð ég mig að því að fylgjast með hverri hreyfingu hennar með meiri athygli en ég nokkru sinni hafði sýnt náminu. Annað slagið sagði hún eitthvað við sjálfa sig, hikaði, dæsti og klappaði svo með vinstri hendi á ennið á sér, rétt eins og hún væri að slá á stauk með samanklesstu salti. „Ah, auðvitað, bjáni ertu,“ man ég að hún hálfhvíslaði í eitt skiptið og hélt svo ótrauð áfram. Hæglátt en einbeitt fas hennar dró mig síðar þetta kvöld inn á kaffistofu þar sem ég átti í raun alls ekkert erindi. Hún var að grilla sér samloku og til að sýnast opnaði ég kytrulegan ísskáp okkar nemendanna sem yfirleitt moraði í myglu og afdönkuðu nesti. Hafði aldrei svo mikið sem haft rænu á að stinga þar nokkru inn, enda allt annað en þessi forsjála nestistýpa. Sá þar yfirgefna og einmanalega dós af pepsí og greip hana ófrjálsri hendi í von um að freyðandi vökvinn myndi drekkja umkomuleysi mínu. Um leið og ég fletti flipanum og hleypti áköfum gosstrók út í frelsið með nettum smelli leit hún kímin yfir öxl sér. Ég bar mig mannalega, tók góðan gúlsopa og bældi niður langan ropa með því að halda niðri í mér andanum um stund.
„Ertu nokkuð að drekka pepsíið mitt?“ spurði hún sposk með rjúkandi ostasamloku í hendinni. Fann hvernig ég roðnaði, greip fyrir andlitið og óskaði þess að ég væri kominn upp í afdal. Þegar ég loks lét höndina síga og gægðist út milli fingranna var hún búin að skipta samlokunni í tvennt. Svo leit hún skellihlæjandi á mig og sagði: „Ætli ég verði þá ekki að deila brauðinu með þér líka.“
Ég hef haft það fyrir sið að senda Katrínu konu minni skilaboð stuttu eftir lendingu, nær undantekningarlaust geri ég það á hraðri göngu minni eftir köldum landganginum. Stöðluð og hnitmiðuð: Lentur, hlakka til að sjá ykkur. Í dag, Þorláksmessu, ætti ég að ganga lengra. Spyrja í vinsamlegum upptakti: Eitthvað sérstakt úr fríhöfninni? Eru gaurarnir spenntir? Jafnvel að hengja rautt hjarta við. Þess í stað geng ég inn á skurðstofulíkt salerni, mæti í speglinum flóttalegu augnaráði grásprengds karlmanns, tek af mér gleraugun og þurrka kaldsprottinn svita af enni mér.
Þarna um árið, þetta kvöld, líklega á þriðju samlokunni, sagði Sólveig mér að hún lærði mest á kvöldin af því hún ynni þrjá morgna í viku við að kenna stærðfræði í MH. Þau væru sko að kaupa sér íbúð, hún og kærastinn, læknanemi á öðru ári. Held hún hafi í raun viljað segja, ekki fara að gera þér neinar vonir, minn kæri. Líklega vön aðdáun hins kynsins frá fyrstu stundu hugsaði ég og dró stólinn örlítið til baka. Löngu spjalli og kaldhæðnu gríni okkar þetta kvöld fylgdum við eftir með þéttri samvinnu allt skólaárið og vináttan óx. Ég tók glósur og mætti í alla tíma á meðan Sólveig leysti dæmin, ég skrifaði skýrslurnar mínar og hennar. Hún var talan, ég var textinn, yin og yang. Ostasamlokur í mislágkúrulegum útgáfum og pepsí var lifibrauð okkar kvöldin fyrir próf þar sem Sólveig af sinni einstöku ósérhlífni og lagni reyndi að troða í mig nógu miklum skilningi á stærðfræði til að ég ætti séns á að slefa í gegn. Sumir í árganginum héldu að við værum par og einhverju sinni sögðum við í gríni við hóp stelpna að við ættum saman þrjú börn. Veit ekki hvort það var vegna vonarglampans í augum mér eða heiðarleika hennar sem hún leiðrétti það um hæl.
Trúnaðurinn óx með tímanum, við botnuðum ýmist setningar fyrir hvort annað eða hlógum í keng að ósögðum endi kómískra frásagna. „Þú áttir ekki að hlæja strax, leyfðu mér að klára, fíflið þitt,“ var oft viðkvæðið. Það sem við gátum hlegið. Ég hef saknað þess allar götur síðan að vera jafn afslappaður og blátt áfram í félagsskap við konu. Þó er ekki svo að ég hafi ekki að einhverju leyti höndlað hamingjuna. Ég er í tryggri vinnu og með talsverð mannaforráð, á tvo vel lukkaða syni og ábyrga og góða konu. Katrín, sem er finnsk, hefur alla tíð stutt mig í mínu krefjandi starfi og borið hitann og þungann af heimilishaldinu. Fyrir það er ég óskaplega þakklátur. Mig skortir í raun ekkert.
Já, við vorum sannir vinir. Ég gerði við hjólið hennar, hún klippti á mér hárið, ég skipti um tengil á tölvunni hennar og hún var sú eina sem þorði að heimsækja mig þegar ég fékk lungnabólguna. Þvert á ráðleggingar læknastúdentsins.
Það hlaut að koma að því. Gerðist um bjarta vornótt eftir prófalok þar sem hún hafði fagnað fimmunni minni meira en níunni sinni. Í huga mér fékk hún fjórtán. Við sögðum þúsund sinnum já.
„Í þetta eina og síðasta sinn, þú lofar,“ sagði hún með eld og tár í augum á meðan hún svipti mig úr skyrtunni. Ég játaði hugfanginn því sem mér þótti óumflýjanlegt og hneppti varnarlaus sjálfan mig í nær ævilangt varðhald.
Um sumarið fór ég norður til ömmu. Sólveig fékk góða vinnu í bænum. Ég vann sem berserkur, gekk til fjalla, synti í ám, sótti öll möguleg sveitaböll og drakk ótæpilega. Taldi niður að skólabyrjun í fyrsta sinn. Ó hve lengi, lengi ég beið.
Gat svo engu svarað samstúdentum okkar um fjarveru hennar, viku frá skólabyrjun, tveimur og svo þremur. Spurði einskis og lét sem mér væri skítsama. Snerti ekki símann. Heyrði svo í lok september að hún væri komin í Kennó og ætti von á tvíburum með verðandi lækni.
Allt þetta líf er búið spil, þú ert farin þína leið, söng ég hástöfum í öllum partýum og frestaði svo hverju prófinu á fætur öðru en endaði einhvern veginn með að drusla mér á afturlöppunum í gegnum fjármálaverkfræðina. Ekki svo mikið sem hjólaði ég fram hjá Kennó hvað þá leitaði ég hana uppi þessa vetur í bænum. Hafi ég séð henni bregða fyrir taldi ég mér trú um að það væru ofsjónir. Tók masterinn í Kaupmannahöfn og flutti svo beint norður. Katrín setti ekki kuldann fyrir sig.
Sólveig er að teygja sig eftir kippu af Kalda í fríhafnarversluninni og ég læt sem við rekumst saman á ný fyrir tilviljun. Að þessu sinni er bros hennar ekki keypt, ekki innifalið í flugmiðanum heldur einlægt og meyrt og þegar ég lít í augu hennar sé ég flöktandi sársauka. Eða sé ég spegilmynd eigin angistar? Dofinn stend ég hálf álkulegur við hlið hennar, límdur við gólfið og kem ekki upp orði. Á sama tíma og ég veit ekkert um hana, þekki ég hana allt of vel.
„Ertu svo á leiðinni norður?“ spyr hún.
„Já,“ svara ég hugsi.
„Farðu varlega, það á víst að hvessa.“
„Nú jæja,“ segi ég og teygi mig sjálfur í tvær kippur án þess að vita af hverju, ég drekk jú ekki bjór.
Eftir átján ára þögn tölum við um veðrið.
Svo hringsólum við með körfurnar milli rekka og ég gríp eitthvað úr hillunum í fáti. Við ættum að halda um sömu körfuna, hugsa ég í laumi og gef henni um leið gætur þar sem hún stendur hnarrreist í röðinni beint fyrir framan mig. Hversu oft hafa ekki læðst að mér álíka hugsanir?
Hrúga allt of mörgum sælgætispökkum þétt upp við stikuna sem skilur líf okkar að. Tek á mig rögg.
„Þú hefur þá vitað að ég byggi fyrir norðan,“ segi ég um leið og ég legg veglega ginflösku á bandið sem ég veit varla hver valdi. Taldi mig vera að kaupa viskí.
Hún svarar ekki en raðar áfengi og snyrtivörum niðurlút í poka.
„Hætt að kenna?“ spyr ég þá og reyni að hljóma kæruleysislega en heyri sjálfur ágengnina í málrómnum þrátt fyrir bankandi æðasláttinn í höfðinu á mér.
„Já.“
„Börn?“
„Já, tvær stelpur, tvíbura.“
„Einmitt,“ segi ég og reyni að mæta augnaráði hennar sem hefur þá þegar lagt á flótta.
„Það væri áhugavert að sjá myndir af þeim,“ bæti ég of ákveðinn við.
„Heldurðu það?“ segir hún og mænir ofan í pokann.
„Já, það væri bara afskaplega áhugavert.“
„Það var gaman að rekast á þig,“ heyri ég hana segja brostinni röddu um leið og hún gengur á brott með byrðir til hvorrar handar.
Ég elti. Með allt of þunga poka, tölvutöskuna og aðra í eftirdragi geng ég eins stórstíga og mér er unnt á meðan síminn sem enn liggur óhreyfður í hægri jakkavasanum lemst fruntalega í mjaðmabeinið á mér. Finnst ég vera að leika í danskri kvikmynd, fjölskyldudrama þar sem söguþráðurinn er spunninn úr afgöngum. Mynd sem Katrín myndi velja í máttlausri tilraun til að sameina okkur fyrir framan sjónvarpsskjáinn en ekki gera annað en að svæfa mig á sófanum. Finn fyrir sömu vorkunnsemi gagnvart sjálfum mér og ég hef haft í garð aðalleikara uppskrúfaðs vandamálaveruleika. Í þessari senu fæ ég þó engu ráðið.
Treð mér í sama hólf vængjahurðarinnar þar sem örlög okkar um stund eru samstíga.
„Hvað viltu eiginlega?“ spyr hún og þótt hún snúi við mér baki sé ég tárin.
„Ég skulda þér alltaf eina pepsi,“ segi ég lágróma.
Höfundur: Þórunn Rakel Gylfadóttir